Sekta Meta um 36 milljarða

AFP

Írsk eftirlitsstofnun hefur sektað Meta, móðurfélag Facebook, um 251 milljón evra, eða sem jafngildir um 36 milljörðum kr., fyrir að hafa ekki náð að verja gögn notenda í kjölfar tölvuárásar þar sem tölvuþrjótar komust yfir aðganga notenda.

Stofnunin, Nefnd um gagnaöryggi (DPC), gagnrýndi Meta fyrir öryggisbrest þegar kemur að því að hlaða inn myndskeiðum á Facebook. Þessi galli gerði tölvuþrjótunum kleift að komast inn og ná aðgöngum notenda á miðlinum á sitt vald. DPC aðstoðar Evrópusambandið við að tryggja gagnaöryggi.  

Á um tveggja vikna tímabili árið 2018 tókst hökkurum að komast inn í um 29 milljónir Facebook-aðganga á heimsvísu, þar á meðal þrjár milljónir aðganga í ríkjum Evrópusambandsins. 

Þeir komust yfir persónuleg gögn á borð við netföng, símanúmer, staðsetningar og vinnustaði. 

„Það að tryggja ekki gagnaöryggi við hönnun og þróun getur útsett einstaklinga gagnvart mjög alvarlegri ógn og valdið skaða, meðal annars ógn gagnvart grundvallarréttindum og frelsi einstaklinga,“ segir Graham Doyle, samskiptastjóri DPC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert