Rússnesk yfirvöld hafa útvíkkað hreinsunarstarf við Svartahaf en þar varð mikill olíuleki eftir að tvö olíuflutningaskip eyðilögðust í aftakaveðri. Mörg þúsund tonn af olíu láku í hafið og um 50 kílómetra löng strandlengja þarfnast hreinsunar.
Gamalt rússneskt tankskip brotnaði í tvennt og sökk í óveðrinu á sunnudag á meðan hitt strandaði í sundi sem tengir Asovshaf og Svarthaf, en það liggur á milli Krímskaga og Krasnodar-héraðs í suðurhluta Rússlands. Þar er að finna marga strandbæi.
Ráðuneyti almannavarna í Rússlandi segir að unnið sé að hreinsa upp strandlengjuna, sem nær frá strandbænum Anapa í norðri til hafnarborgarinnar Temryuk.
Um 9.000 tonn af olíu voru í skipunum og talið er að um þriðjungur olíunnar hafi lekið í hafið.
Gervihnattamyndir sýna að olía lekur enn úr skipinu sem sökk að sögn rússnesku fréttastofunnar TASS. Þá er mjög hvasst á svæðinu sem ýtir olíunni að strandsvæðum í suðri.
Í gær var lýst yfir neyðarástandi í bænum Anapa vegna atviksins, en þar búa um 90.000 manns.
Nú taka um 2.700 manns þátt í hreinsuninni, bæði viðbragðsaðilar og aðrir sjálfboðaliðar. Fólkið mokar upp svartri olíu í plastpoka sem eru síðan fluttir á brott í flutningabílum.
Yfirvöld segja að nú þegar sé búið að fjarlægja um 80 tonn af olíu og búið sé að hreinsa um átta kílómetra langt svæði.