Alvarlegt tilfelli og neyðarástandi lýst yfir

Mjólkursýni á borði rannsóknarstofu við Cornell-háskólann í Ithaca í New …
Mjólkursýni á borði rannsóknarstofu við Cornell-háskólann í Ithaca í New York-ríki. Bandarísk heilbrigðisyfirvöld telja alla þörf á að fylgjast vel með hugsanlegri fuglaflensuveiru í mjólk. AFP/Michael M. Santiago

Alvarlegt fuglaflensutilfelli í Louisiana í Bandaríkjunum þar sem eldri sjúklingur liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi hefur vakið áhyggjur heilbrigðiskerfisins þar í landi. 

Voru einkenni fyrri sjúklinga væg og þeir útskrifaðir heim eftir skoðun, en nýja tilfellið hefur hringt viðvörunarbjöllum. Yfirvöld í Kaliforníuríki hafa lýst yfir neyðarástandi.

Greint var frá veikindum mannsins í tilkynningu heilbrigðisyfirvalda í gær, en tilfellið er það sextugasta og fyrsta sem greinist í Bandaríkjunum árið 2024.

Sjúklingurinn í Louisiana var að sögn Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, US Centers for Disease Control and Prevention, CDC, í návígi við veika og dauða fugla í bakgarði sínum áður en veikindin hófust.

Ekki í áfalli enn þá

„Sjúklingurinn glímir við alvarleg veikindi í öndunarfærum sem tengjast H5N1-sýkingu og hefur verið lagður inn á sjúkrahús í lífshættulegu ástandi,“ segir í yfirlýsingu sem heilbrigðisráðuneytið í Louisiana sendi AFP-fréttastofunni sem svar við fyrirspurn þaðan.

„Þau rúmu tuttugu ár sem heimsbyggðin hefur mátt reyna þessa veiru hefur H5-sýking helst kallað fram alvarleg veikindi í öðrum löndum, þar á meðal veikindi sem kostuðu mannslíf í allt að helmingi tilfella,“ segir Demetre Daskalakis talsmaður CDC í samtali við fréttamann AFP og bætir því við að veiran hafi sýnt hættueiginleika sína svo ekki verði um villst og sé því síst vanþörf á því að ríki Bandaríkjanna taki höndum saman við sóttvarnir á alríkisvettvangi.

Rebecca Christofferson, vísindamaður við Ríkisháskóla Louisiana, segir AFP að hörgull á virku eftirliti geri það að verkum að vandi sé að segja til um hvort frekari smittilfelli frá dýrum yfir í mannfólk hafi átt sér stað án þess að uppgötvast, jafnframt því hvort smit berist nú milli fólks.

„Ég er ekki í áfalli enn þá,“ segir Christofferson en slær þann varnagla við AFP að aðgátar sé þörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert