Ellefu fórust í eldsvoða í Hanoi

Slökkviliðsmenn fyrir utan bygginguna sem brann.
Slökkviliðsmenn fyrir utan bygginguna sem brann. AFP

Ellefu létust og tveir slösuðust í eldsvoða á karókibar í Hanoi, höfuðborg Víetnam, í gærkvöld. Grunur er um íkveikju að sögn lögreglunnar.

Byggingin þar sem eldurinn kviknaði í er gjörónýt en lögreglan fékk tilkynningu um eldinn klukkan 23 að staðartíma.

Fjölmennt björgunarlið fór þegar á vettvang og tókst að bjarga sjö manns á lífi og voru tveir þeirra fluttir á sjúkrahús en ellefu fundust látnir.

Lögreglan segist hafa handtekið aðilann sem er grunaður um að hafa kveikt í byggingunni en sjónarvottar segja að eldurinn hafi verið svo mikill að enginn hafi þorað að reyna að bjarga þeim sem voru innilokaðir. Svalir byggingarinnar voru lokaðar með málmstöngum sem hindruðu för þeirra sem reyndu að flýja út úr byggingunni.

Talið er að eldurinn hafi kviknað á fyrstu hæð áður en hann breiddist hratt út um bygginguna. Fjölmiðlar í Víetnam segja að myndefni úr eftirlitsmyndavélum hafi sýnt mann bera fötu inn í húsnæðið skömmu áður en eldurinn blossaði upp.

Að sögn lögreglu var maður sem er grunaður um íkveikju handtekinn um miðnætti.

Björgunaraðilar bera eitt fórnarlambið í sjúkrabíl.
Björgunaraðilar bera eitt fórnarlambið í sjúkrabíl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert