Í gegnum forsetatíð Joe Bidens beittu starfsmenn hans ýmsum aðferðum til að hylma yfir þau vandamál sem voru farin að fylgja aldri forsetans. Fundir með háttsettum embættismönnum, s.s. Lloyd Austin varnarmálaráðherra og Janet Yellen fjármálaráðherra, urðu sífellt fátíðari og sífellt erfiðara varð fyrir þingmenn og háttsetta leiðtoga að hitta Biden.
Þeir embættismenn sem sáu um lykilatburði, eins og brotthvarf Bandaríkjanna frá Afganistan, áttu oft í erfiðleikum með að fá beinan aðgang að Biden og þess í stað voru menn á borð við Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafi milliliður við forsetann.
Þetta kemur fram í fréttaskýringu Wall Street Journal þar sem rætt er við tugi starfsmanna og þingmenn um aðstæður á kjörtímabili Bidens.
Biden var skýlt frá neikvæðum fréttaflutningi af almannatenglum sem störfuðu fyrir Biden-stjórnina. Hann var einnig ekki lengur í samskiptum við aðila sem framkvæmdu kannanir fyrir kosningabaráttu hans og honum var ekki fyllilega ljóst hversu slæm staða hans var orðin.
„Múrarnir í kringum hann voru hærri og eftirlitið meira,“ sögðu þingmenn og aðstoðarmenn Demókrata við WSJ.
Lítill hópur dyggra aðstoðarmanna skýldi Biden fyrir hugsanlegum mistökum, leiðbeindi honum oft í gegnum viðburði og endurtók fyrirmæli.
Heimildarmenn segja að hann hafi verið „leiddur“ í gegnum embættið og gagnrýnendur innan Demókrataflokksins héldu því fram að þessar aðferðir einangruðu Biden bæði frá aðhaldi og beinum afskiptum af mikilvægum málefnum.
Einangrun Bidens hamlaði verulega samskipti við ráðherra og þingmenn. Demókratinn Adam Smith, fyrrverandi formaður hermálanefndar þingsins, sagði við WSJ að hann hefði reynt að lýsa yfir efasemdum um brotthvarf hersins frá Afganistan beint til Bidens.
Hann taldi Biden-stjórnina vera of bjartsýna um áform sín og vildi koma þeim skilaboðum beint áleiðis til forsetans en fékk aldrei að tala beint við forsetann, að hans sögn.
„Biden-stjórnin var einangraðri en flestar aðrar,“ sagði Smith. „Ég talaði við Barack Obama í mörg skipti þegar hann var forseti og ég var ekki einu sinni formaður nefndarinnar þá.“
Takmarkaður aðgangur að Biden kom jafnvel bandamönnum Bidens í opna skjöldu.
Jim Himes, þingmaður demókrata í leyniþjónustunefnd þingsins, benti á að persónuleg samskipti hans við Biden væru mun minni en við fyrri forseta. Ráðherrar, þar á meðal Austin og Yellen, áttu oft í samskiptum við háttsetta aðstoðarmenn fremur en Biden sjálfan.
Snemma í forsetatíð hans varð ljóst að heilsu hans var farið að hraka. Fundir voru styttir og dagskrá aðlöguð að getu hans.
Á erfiðum dögum þar sem hann var orkulítill var fundum frestað með öllu. Þrátt fyrir þessa aðlögun þá hafði aldur Bidens áhrif á getu hans til að undirbúa sig fyrir erfiðar stundir.
Í viðtali við sérstakan saksóknara um trúnaðarskjöl árið 2023 átti Biden í erfiðleikum með að rifja upp dagsetningar og minnisblöð sem hann hafði skrifað.
Saksóknarinn skilaði að lokum skýrslu sinni þar sem það var ráðlagt að hann yrði ekki sóttur til saka fyrir að hafa haft trúnaðarskjöl heima hjá sér í óleyfi vegna þess að kviðdómur myndi sýna honum samúð fyrir að vera „vel meinandi eldri maður með slæmt minni.“
Þetta gerðist þrátt fyrir það að Biden undirbjó sig klukkutímum saman á hverjum degi allt að viku fyrir viðtalið.
Kosningabarátta Bidens endurspeglaði hið þéttskipaða umhverfi forsetatíðar hans.
Styrktaraðilar sem sóttu viðburði voru beðnir um að senda fyrirfram samþykktar spurningar sem síðan voru lesnar upp.
Þrátt fyrir þessar varúðarráðstafanir hélt Biden áfram að gera mistök og sumir stuðningsmenn hans byrjuðu að fá efasemdir um getu hans til að sinna öðru kjörtímabili.
Að mestu virkaði þetta þar til Joe Biden mætti í kappræður gegn Donald Trump í júní og fólk um heim allan varð einfaldlega slegið.
Frammistaðan olli því að nánir bandamenn og þingmenn innan Demókrataflokksins fóru að hafa áhyggjur af heilsu forsetans og hvöttu hann til að draga framboð sitt til baka.
Nokkrum vikum síðar gerði hann það.