Þrír skothvellir í röð, þá örstutt hlé, svo fimm að auki. Að lokum einn stakur. Þetta var það sem skelfingu lostnir vegfarendur norska bæjarins Moss í Østfold-fylkinu suður af Ósló heyrðu að kvöldi 28. nóvember í fyrra þegar 37 ára gamall sænskur maður var skotinn átta skotum – það níunda geigaði – fyrir utan íþróttahöllina Mossehallen.
„Þannig hljómaði það þegar sænska ofbeldisbylgjan skall á Noregi,“ skrifa fjórir fréttamenn norska ríkisútvarpsins NRK sem fjalla um mál sem norska lögreglan getur fyrst nú tjáð sig um í heild og snýst um útsendara frá nágrannalandinu Svíþjóð, þar sem mikil gengjastríð geisa nú, sem sendir voru yfir til Noregs með þá fororðningu í farteskinu að koma Svíanum áðurnefnda fyrir kattarnef.
Hann lifði árásina og var fluttur á Ullevål-sjúkrahúsið þar sem gert var að sárum hans. Verkefnið hafði með öðrum orðum misheppnast frá sjónarhóli óvildarmannanna í Svíþjóð. Við það varð ekki unað.
„Þá var send út fyrirspurn um það hvort einhver gæti farið aftur til Noregs og lokið verkefninu gegn peningagreiðslu,“ segir Benedicte Granrud, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Ósló. Ætlunarverkið Svíþjóðarmegin var sem sagt að gjalda skotmarkinu rauðan belg fyrir gráan, og það endanlega, á Ullevål-sjúkrahúsinu í Ósló.
Þetta mál er eitt 40 sakamála í skrám lögreglu í Noregi sem sænsk glæpagengi tengjast með einhverjum hætti og að þessu sinni ná málavextir alla leið inn í innsta hring Foxtrot-klíkunnar sem hinn kúrdíski Rawa Majid, „Kúrdíski refurinn“ svokallaði, stjórnar frá Tyrklandi.
Tengist málið viðsjám Majid og Ismail nokkurs Abdo, fyrrverandi stjórnanda Foxtrot við hlið refsins, en þeim sinnaðist á sínum tíma og síðan hafa skot- og sprengjuárásir gengið á víxl í Svíþjóð með það að augnamiði að salla niður vini, ættingja eða samstarfsmenn óvinarins. Að þessu sinni náði málið yfir til Noregs og var verkefnið að undirlagi Abdos sem einnig gegnir nafninu „Jarðarberið“ í sænskum undirheimum.
Töldu tilræðismenn í fyrstu að verkið hefði verið fullunnið í Moss. Á lokaðri og dulkóðaðri samskiptarás einhvers staðar á lýðnetinu þar sem málsaðilar réðu ráðum sínum barst þessi tilkynning:
A: Done
Svarið barst um hæl:
Real Cash Out: bra jobbat grabbar [vel gert strákar]
Viku eftir að maðurinn var skotinn niður á götu í Moss voru tveir menn komnir til Noregs til að finna hann og drepa á sjúkrahúsinu. Það sem Ismail Abdo var ókunnugt um er að tveimur dögum áður hafði lögreglan í Stokkhólmi í Svíþjóð handtekið 25 ára gamlan mann fyrir að ógna öðrum með eggvopni. Daglegt brauð hjá sænskum gengjum og sænskri lögreglu.
Nema hvað að í síma hins handtekna fann lögregla spjallið um leigumorðið í Moss og hafði þegar samband við norsk starfssystkini sín. Það sem fram kom í spjallinu í símanum reyndist síðar eiga eftir að ráða úrslitum í lögreglurannsókninni Noregsmegin.
Komst norska lögreglan á snoðir um hvað til stæði á Ullevål þar sem fórnarlambið lá milli heims og helju og gekkst undir fjölda aðgerða. Maðurinn lá enn á sjúkrahúsi í apríl í vor, hálfu ári eftir skotárásina í Moss og var þá fyrst í ástandi til að gangast undir skýrslutöku lögreglu – sem fram fór á sjúkrabeði hans.
Norskir sérsveitarmenn með Heckler & Koch-hríðskotabyssur og Glock-skammbyssur tóku sér nú bólfestu á Ullevål svo lítið bar á, klæddust þar borgaralegum klæðnaði og duldust í bakherbergjum og ræstingakompum. Að ná tilræðismanninum, eða -mönnunum, á lífi hafði úrslitaþýðingu fyrir rekstur sakamáls sem hefur göngu sína fyrir Héraðsdómi Óslóar með rísandi sól.
Enginn kom hins vegar til að ljúka verkinu sem hófst í Moss viku áður. Höfðu Abdo og hans menn bakkað út þegar maður með hættulegan síma var handtekinn? Hundrað þúsund sænskar krónur, jafnvirði tæplega 1,3 milljóna íslenskra króna, áttu að greiðast fyrir vígið, „100 lax“ eins og sú upphæð kallast á dulmáli samskiptamiðla.
Liggja níu manns nú undir grun norsku lögreglunnar fyrir aðild að málinu og sitja fjórir þeirra í gæsluvarðhaldi í Noregi. Þeir munu sitja lengi. Norska lögreglan kýs að tjá sig ekki um hlutverk málsaðila fyrir réttarhöldin en fréttamenn NRK hafa komist á snoðir um að pöntun um manndráp í Moss barst af efstu hæð valdapíramídans, líkast til frá „Jarðarberinu“ sjálfu, Ismail Abdo.
Á yfirlitskorti NRK um persónur og leikendur er Abdo „Pantarinn“ (n. Bestilleren). Hann er nú eftirlýstur alþjóðlega en enginn veit hvar „Jarðarberið“ er niður komið. Líkast er sem jörðin hafi gleypt það.
„Bílstjórinn“ (n. Sjåføren) er 21 árs gamall Svíi sem annaðist akstur í Moss og var til reynslu sem félagi vélhjólaklúbbsins Bandidos í Svíþjóð. Hann hefur ekki hlotið refsidóma.
„Skyttan“ (n. Skytteren) er 25 ára gamall Sýrlendingur sem er grunaður um að hafa skotið sænska manninn átta skotum.
„Beitan“ (n. Lokkemannen) er 48 ára gamall Svíi sem lögregla ætlar að hafi haft það hlutverk að ginna skotmarkið þangað sem vegið var að því úr launsátri. Sá neitar alfarið sök að sögn verjanda hans, Øyvind Bratlien.
„Reddarinn“ (n. Fikseren) er 33 ára gamall Svíi sem grunaður er um að hafa verið „Bílstjóranum“ og „Skyttunni“ innan handar við að útvega bifreið til verksins í Moss. Hann kannast ekkert við málið að sögn verjanda hans, Gard Lind-Iversen.
Norska lögreglan vill ekki tjá sig um hvað það var nákvæmlega sem varð til þess að maðurinn í Moss varð skotmark „Jarðarbersins“ í málinu. Þetta segir Granrud ákæruvaldsfulltrúi.
Rannsókn málsins er lokið og reiknar lögregla með að aðalmeðferð fyrir héraðsdómi hefjist með vorinu.