Fimm látnir í Magdeburg

Lögregla rannsakar bifreiðina sem maður ók inn í mannfjöldann í …
Lögregla rannsakar bifreiðina sem maður ók inn í mannfjöldann í Magdeburg. AFP/John MacDougall

Að minnsta kosti fimm hafa látið lífið eftir að maður ók bifreið inn í mann­fjöld­ann á jóla­markaði í borg­inni Mag­deburg í aust­ur­hluta Þýska­lands í gærkvöldi, að því er þýski miðillinn Spiegel greinir frá.

Eitt af fórnarlömbum árásarinnar var barn. Talið er að 68 manns hafi slasast og þar af 15 al­var­lega.

Árás­armaður­inn heit­ir Taleb A. og var hann hand­tek­inn á staðnum. Að sögn Spieg­el er Taleb geðlækn­ir frá Sádí Ar­ab­íu og er 50 ára að aldri.

Sádí Arabía fordæmir árásina

Utanríkisráðuneyti Sádí Arabíu hefur fordæmt árásina á samfélagsmiðlinum X.

Segir þar að ríkið ítreki stöðu sína gegn ofbeldi og votti aðstandendum samúð sína og óski þess að hinir slösuðu nái skjótum bata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert