Skotið á sama skólann þrisvar á árinu

Skólastjórinn segir að foreldrar séu áhyggjufullir.
Skólastjórinn segir að foreldrar séu áhyggjufullir. Ljósmynd/Wikipedia.org/Aaron Davis

Í gær var í þriðja sinn á árinu skotum hleypt af á gyðingaskólann Bais Chaya Mushka í borginni Toronto í Kanada. Enginn særðist í árásinni.

Árásin átti sér stað snemma morguns í gær og samkvæmt lögreglunni í Toronto slasaðist enginn.

Skólinn, sem er einungis fyrir stelpur, varð einnig fyrir skotárás í maí og október.

Árás á gyðingasamfélagið

„Foreldrar eru áhyggjufullir, pirraðir og hræddir. Nemendur eru hræddir, starfsfólk er hrætt og enginn ætti að vera hræddur við að koma í skólann,“ sagði rabbíninn Yaacov Vidal, skólastjóri skólans, við blaðamenn.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, fordæmdi árásina á samfélagsmiðlum og sagði hana vera árás á gyðingasamfélagið í Toronto.

Á miðvikudaginn var kveikt í sýnagógu í Montreal en haturstengd atvik gegn gyðingum í Kanada tvöfölduðust á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka