Bílbruni barst í hús er rýma þurfti að hluta

Við voginn í gömlu Hansakaupmannaborginni Bergen. Eldur kviknaði í nótt …
Við voginn í gömlu Hansakaupmannaborginni Bergen. Eldur kviknaði í nótt í bifreið í Sandsli-hverfi þessarar höfuðborgar Vestur-Noregs og þurfti lögregla að rýma sjö íbúðir í nálægu fjölbýlishúsi eftir að eldurinn læsti sig í það. Ljósmynd/Wikipedia.org/Pål S. Schaathun

Eldsvoði í Sandsli-hverfinu í Bergen í Noregi, sem hófst með því að eldur kom upp í bifreið um klukkan tvö í nótt að norskum tíma, hafði á skömmum tíma þær afleiðingar að 56 íbúar neyddust til að yfirgefa heimili sín í rýmingu lögreglu á sjö íbúðum í fjölbýlishúsi skammt frá bifreiðinni brennandi eftir að eldurinn hafði læst sig í fleiri bifreiðar og í framhaldi af því kveikt í húsinu.

„Þegar við komum á vettvang var mikill eldur í bifreiðunum og húsinu rétt aftan við þær,“ segir Leif Gjesdal, stjórnandi aðgerða slökkviliðsins í Bergen á vettvangi brunans, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Í byrjun barst tilkynning um eld í gámi en þeim framburði var síðar breytt eftir að ljóst varð að eldurinn hafði upphaflega kviknað í einni bifreiðanna.

Reykkafarar leituðu af sér grun

Ekki leið á löngu uns lögreglan í vesturumdæminu greindi frá því í tilkynningu á samfélagsmiðlasvæðum sínum stundarfjórðung fyrir klukkan þrjú að eldurinn hefði borist yfir í íbúðarhúsið og þar hefðu sjö íbúðir verið rýmdar.

Leituðu reykkafarar að lokum af sér allan grun í húsinu um hvort fólk leyndist enn í íbúðunum sjö og lauk að lokum störfum á vettvangi á fimmta tímanum í nótt.

NRK

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert