Aldrei verið flogið nær sólu

Tölvugerð mynd sem sýnir sólfarið á leið sinni til sólar.
Tölvugerð mynd sem sýnir sólfarið á leið sinni til sólar. AFP/NASA/Johns Hopkins

Sólfar NASA, bandarísku geimvísindastofnunarinnar, Parker Solar Probe, mun í dag, ef áætlanir ganga eftir, fljúga inn í ytri lofthjúp sólarinnar.

Samband mun rofna við farið meðan á flugi þess stendur en búast má við að samband verði aftur komið þann 27. desember og þá verður ljóst hvort farið hafi komist óskaddað frá för sinni.

Vonir eru bundnar við að flugið veiti betri innsýn í virkni sólarinnar.

Í fjögurra sentímetra fjarlægð

Farinu var fyrst skotið á loft 2018 og tók stefnu á miðju sólkerfisins. Það hefur flogið tuttugu og einu sinni fram hjá sólinni og sífellt fært sig nær henni. Aldrei hefur tekist að fljúga inn í ytri lofthjúpinn.

Þegar farið verður næst sólu verður það í rúmlega sex milljón kílómetra fjarlægð frá yfirborði hennar.

Vegalengdin hljómar kannski ekki sérstaklega stutt frá sólu en við erum að sögn Dr. Nicola Fox, vísindamanns hjá NASA, tæpum 150 milljón kílómetrum frá eldhnettinum. 

„Þannig að ef ég myndi setja jörðina og sólina í eins metra fjarlægð frá hvor annarri væri Parker Solar Probe í fjögurra sentímetra fjarlægð frá sólu, svo það er nálægt.“

Farið þarf að þola 1.400 gráðu hita og gífurlega geislun en 11,5 sentímetra þykkur kolefnaskjöldur ver farið.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert