Íslenski læknirinn Henning Busk, sem starfar sem hjarta- og brjóstholsskurðlæknir við háskólasjúkrahúsið í Magdeburg í Þýskalandi, segir mikla sorg og reiði ríkja í borginni.
Fimmtugur karlmaður frá Sadí-Arabíu ók bifreið inn í mannfjölda á jólamarkaði í borginni á föstudag. Fimm eru látnir og um 200 manns slösuðust. Að sögn Hennings eru einhverjir hinna slösuðu í lífshættu.
„Hér ríkir mikil sorg og reiði,“ segir Henning í skriflegu svari til mbl.is.
Hann segir engan hafa getað ímyndað sér að svona árás yrði framin í þessari fámennu borg. „Allir þekkja einhvern sem fór illa í þessu,“ segir Henning.
Jólamarkaðurinn í Magdeburg er vinsæll meðal íbúa og ferðamanna sem heimsækja borgina um jólin. Að sögn Hennings er nú búið að slökkva á flestum jólaljósum og jólaskreytingum.
„Við eina kirkjuna hér kemur fólk til að biðja fyrir eða minnast þeirra sem dóu. Þetta er allt mjög sorglegt,“ segir Henning.