Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar í ríkisstjórninni

Ríkisstjórn Francois Bayrou. Efsta röð frá vinstri; Bayrou, Elisabeth Borne …
Ríkisstjórn Francois Bayrou. Efsta röð frá vinstri; Bayrou, Elisabeth Borne menntamálaráðherra, Manuel Valls nýlenduráðherra, Gerald Darmanin dómsmálaráðherra og Bruno Retailleau innanríkisráðherra. Önnur röð frá vinstri; Catherine Vautrin, atvinnumála-, heilbrigðis-, fjölskyldu- og samstöðuráðherra, Eric Lombard fjármálaráðherra, Sebastien Lecornu varnarmálaráðherra, Rachida Dati menningarmálaráðherra og Francois Rebsamen, ráðherra svæðisskipulags og valddreifingar. Neðsta röð frá vinstri; Jean-Noel Barrot utanríkisráðherra, Agnes Pannier-Runacher, umhverfis- og sjávarútvegsráðherra, Annie Genevard landbúnaðarráðherra, Laurent Marcangeli, ráðherra opinberra aðgerða og þjónustu og Marie Barsacq, íþróttamála- og æskulýðsráðherra. Samsett mynd/AFP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, kynnti fjórðu ríkisstjórnina í landinu á þessu ári í gærkvöld. 

Miðjuleiðtoginn, Francois Bayrou, var skipaður forsætisráðherra um miðjan mánuðinn og falið að mynda ríkisstjórn.

Lombard verður fjármálaráðherra

Elisabeth Borne, fyrrverandi forsætisráðherra, verður menntamálaráðherra og annar fyrrverandi forsætisráðherra, Manuel Valls, verður nýlenduráðherra. Gerald Darmanin verður dómsmálaráðherra en hann er fyrrverandi innanríkisráðherra.

Varnarmálaráðherrann, Sebastien Lecornu, og utanríkisráðherrann, Jean-Noel Barrot, sitja áfram í embætti en Lecornu hefur setið í öllum ríkisstjórnum síðan Macron komst til valda árið 2017. Innanríkisráðherrann, Bruno Retailleau og menningarmálaráðherrann, Rachida Dati, halda einnig sínum ráðherrastólum.

Eric Lombard verður fjármálaráðherra og fær það erfiða verkefni að leggja fram fjárlög næsta árs.

Vinna að því að byggja upp traust

Francois Bayrou sagðist á samfélagsmiðlum vera virkilega stoltur af því ráðherraliði sem kynnt var í gærkvöld og sagði að hans reynda ríkisstjórn myndi vinna að því að byggja upp traust í landinu.

Það að tveir fyrrverandi forsætisráðherrar séu meðal ráðherra í ríkisstjórn gefur til kynna vilja Macrons um þungavigtarríkisstjórn sem muni njóta stöðugleika og ekki gjalda sömu örlög og fyrri ríkisstjórnir.

Michel Barnier var hrakinn var frá völdum í kjölfar þess að þingið lýsti yfir hann van­trausti vegna þess að hann reyndi að þvinga fjárlögum, sem gerðu ráð fyrir niðurskurði, í gegnum þingið samkvæmt ákvæði í stjórnarskrá Frakklands sem gerir ríkisstjórninni heimilt að samþykkja frumvarp án viðkomu í þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert