Gerir Trump heiminn öruggari eða óöruggari?

Fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason telur að heimurinn verði öruggari næstu fjögur árin með Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Friðjón Friðjónsson borgarfulltrúi segir að það geti brugðið til beggja vona.

Þetta kemur fram í Dagmálum þar sem Frosti og Friðjón ræða um kosningasigur Trumps og hvað framtíðin beri í skauti sér.

„Ég vil trúa því að hann sé öruggari

Heldurðu að heiminn sé öruggari eða óöruggari næstu fjögur árin með Trump við stjórn?

„Ég vil trúa því að hann sé öruggari. Mér finnst það skipta máli að Trump er ekki úr þessum skóla stríðshauka og hann hefur minni tilhneigingu til þess að þenja Bandaríkin út á alþjóðasviðinu.

Manni finnst eins og hann muni gera eitthvað til þess að reyna stöðva þær styrjaldir sem við sjáum helst sem eru náttúrulega Úkraína og Ísrael/Palestína,“ segir Frosti.

Heimurinn verði óvæntari

Friðjón segir erfitt að svara því hvort heimurinn verði öruggari en hann verði þó óvæntari.

Hann segir að heimurinn geti orðið öruggari ef Bandaríkjamenn ná að auka olíuframleiðslu og þannig lækkað heimsmarkaðsverð olíu, sem myndi svipta Rússalandi og Íran tekjum.

„Ef að hins vegar hann fer af stað í einhverja leið og leysir upp alþjóðakerfi sem við erum vön og þekkjum frá seinni heimsstyrjöld og NATO lendir í vandræðum og hann leysir upp NATO – í einhverjum friðarsamningum við Pútín [Rússlandsforseti] – þá verður heimurinn óöruggari,“ segir Friðjón.

Hann bætir við að Vladimír Pútín muni ekki hætta með stríðinu í Úkraínu ef hann fær lausan tauminn.

„Ég sé þetta ekki gerast,“ segir Frosti og bætir við að Trump hafi lýst yfir stuðningi við Atlantshafsbandalagið þó hann hafi krafið aðildarríki um að auka útgjöld í varnarmál.

Valdatómarrúm í Evrópu

Friðjón segir að valdatómarúm sé í Evrópu í kjölfar þess að Angela Merkel, fyrrverandi Þýskalandskanslari, fór á braut og því verði áhugavert að fylgjast með samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu.

„Það er enginn sterkur leiðtogi á meðal stóru ríkjanna. Starmer [forsætisráðherra Bretlands] er veikur, Macron [Frakklandsforseti] er veikur, Scholz [Þýskalandskanslari] er farinn. Það er kannski Meloni [forsætisráðherra] á Ítalíu sem getur gert sig gildandi en Ítalía er samt sem áður alltaf Ítalía,“ segir Friðjón og bætir við:

„Þangað til að við sjáum kosningar í Þýskalandi og hvernig þróast með Bretland og hvort að Starmer nái tökum á sínum störfum – sem virðist ekki vera – að þá er valdatómarrúm í Evrópu sem gerir samskipti Bandaríkjanna og Evrópu miklu áhugaverðari þegar fram í sækir.“

Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni með því að smella hér. 

Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti, Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti, Emmanuel Macron Frakklandsforseti …
Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti, Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Samsett mynd/AFP/Angela Weiss/Grigory Sysoyev/Ludovic Marin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert