Japönsk kona, sem var kölluð „svarta ekkjan“ eftir að hafa notað blásýru til að myrða eldri elskhuga sína, lést í fangelsi í borginni Osaka, 78 ára gömul.
Chisako Kakehi var dæmd til dauða fyrir að hafa myrt þrjá menn, þar á meðal eiginmann sinn, og fyrir að hafa reynt að myrða annan mann fyrir um áratug síðan. Málið vakti gríðarlega mikla athygli þegar það kom upp í Japan á sínum tíma.
Ekki er vitað um dánarorsök Kakehi en hún afplánaði dóm sinn á dauðadeild. Japanskir fjölmiðlar telja líklegt að hún hafi látist af völdum veikinda.
Hæstiréttur staðfesti dauðadóminn yfir Kakehi árið 2021. Í niðurstöðu dómarans kom fram að hún hefði „notað blásýru gegn mönnunum eftir að hafa öðlast traust þeirra sem lífstíðarförunautur“.
„Þetta er þaulskipulagður, grimmilegur glæpur með miklum ásetningi,“ sagði dómarinn, Yuko Miyazaki.
Kakehi er sögð hafa safnað saman um 1,3 milljörðum króna í gegnum tryggingagreiðslur og erfðaskrár á tíu ára tímabili eftir að hafa myrt mennina. Hún er aftur á móti sögð hafa tapað megninu af peningunum vegna slæmra ákvarðana á hlutabréfamörkuðum.