Úkraínumenn handtóku norðurkóreskan hermann

Jeppi frá úkraínska hernum í Sumy-héraði fyrr á árinun.
Jeppi frá úkraínska hernum í Sumy-héraði fyrr á árinun. AFP/Roman Pilipey

Leyniþjónusta Suður-Kóreu staðfesti í morgun að norðurkóreskur hermaður sem hafði verið sendur til að berjast við hlið Rússa í stríðinu gegn Úkraínu hefði verið handsamaður af úkraínskum hersveitum.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa sent þúsundir hermanna til að styðja við bakið á rússneska hernum, þar á meðal í Kúrsk-héraði í Rússlandi við landamærin að Úkraínu en Úkraínumenn réðust óvænt þangað inn í ágúst.

Fram kemur í tilkynningu frá suðurkóresku leyniþjónustunni að norðurkóreski hermaðurinn sem var handtekinn hefði særst í stríðinu. Ekki kemur fram nákvæmlega hvar hann var handtekinn.

Selenskí hlýðir á úkraínska þjóðsönginn við hátíðlega athöfn í gær.
Selenskí hlýðir á úkraínska þjóðsönginn við hátíðlega athöfn í gær. AFP

Nokkrir dagar eru liðnir síðan Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði að næstum þrjú þúsund norðurkóreskir hermenn hefðu verið „drepnir eða særðir“ hingað til eftir að þeir gengu til liðs við Rússa.

Áður hafði suðurkóreska leyniþjónustan sagt að um eitt þúsund norðurkóreskir hermenn hefðu verið drepnir eða þeir særst í stríðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert