Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Jimmy Carter, er látinn 100 ára að aldri. Frá þessu segir sonur hans, James E. Carter hinn þriðji, en Washington Post greinir frá.
Carter var 39. maðurinn til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna en hann var kjörinn árið 1976 og var eitt kjörtímabil.
Eftir forsetasetu sína átti Carter eftir að áorka ýmsu, þar á meðal að vinna friðarverðlaun Nóbels.
Enginn annar Bandaríkjaforseti hefur náð eins háum aldri og Carter.
Ekki hefur verið gefin út dánarorsök forsetans fyrrverandi en hann hafði glímt við húðkrabbamein síðustu ár. Hann undirgekkst krabbameinsmeðferð eftir að meinið dreifði sér í heila hans og lifur.
Í febrúar á síðasta ári var tilkynnt um að hann myndi hætta sjúkrameðferð á spítala og ætlaði hann sér að eyða tíma sínum sem eftir lifði heima hjá sér með aðstoð heimahjúkrunar.
Eiginkona Carters, Rosalynn, lést í nóvember á síðasta ári, 96 ára að aldri. Höfðu þau verið gift í 77 ár, sem er lengsta hjónaband Bandaríkjaforseta til þessa.
Carter kom síðast opinberlega fram í jarðarför Rosalynn en hann sat í fremstu röð í hjólastól.
Carter fæddist 1. október 1924 í Plains í Georgíuríki og var skírður James Earl Carter Jr.
Hann var þingmaður fyrir demókrata í heimaríki sínu frá 1967 til 1971. Frá 1971 til 1975 starfaði hann sem 76. ríkisstjóri Georgíu.
Árið 1976 vann hann nauman sigur í forsetakosningunum í landinu gegn sitjandi forseta, repúblikananum Gerald Ford.
Carter var forseti frá árunum 1977-1981 en tapaði í næstu forsetakosningum fyrir Ronald Regan.
Fréttin hefur verið uppfærð.