Sendi frá sér neyðarboð skömmu fyrir flugslysið

Flugumferðarstjórinn gerði flugmanninum viðvart um mikla umferð fugla í nágrenni …
Flugumferðarstjórinn gerði flugmanninum viðvart um mikla umferð fugla í nágrenni við hann sem gæti truflað lendingu vélarinnar. AFP/Jung Yeon-Je

Flugmaðurinn sem stjórnaði farþegaþotu Jeju Air sem brotlenti á alþjóðaflugvellinum Muan í Suður-Kóreu í nótt sendi frá sér neyðarboð skömmu áður en að vélin hrapaði. 

Suðurkóreskur samgöngumálafulltrúi greindi frá því fyrr í dag að flugmaðurinn hafi verið að reyna lenda vélinni þegar flugumferðarstjórinn gerði honum viðvart að mikil umferð fugla væri í nágrenni við hann og gæti því skapast hætta á því að þeir myndu trufla lendingu vélarinnar. 

Bað flugumferðarstjórinn því flugmanninn að hinkra með lendinguna. Skömmu síðar sendi flugmaðurinn frá sér neyðarboð og gaf þá flugumferðarstjórinn flugmanninum leyfi fyrir því að lenda vélinni úr gagnstæðri átt, sem hann svo gerði. 

Mikill fjöldi viðbragðsaðila er á vettvangi.
Mikill fjöldi viðbragðsaðila er á vettvangi. AFP/Jung Yeon-Je

Lenti án lendingarbúnaðar

Myndskeið af lendingu vélarinnar sýnir flugvélina lenda á flugbrautinni án nokkurs lendingarbúnaðar og hafnaði hún á vegg sem olli eldfimri sprengju. 

Kim E-bae, forstjóri flugfélagsins, hefur sent frá sér afsökunarbeiðni til fórnarlamba flugslyssins og aðstandenda þeirra en þegar þetta er skrifað eru 177 látnir og fer talan ört hækkandi. 

Kim segir að ekki sé enn vitað hvað hafi ollið flugslysinu og að aldrei hafi verið vitað um nein vandamál tengd vélinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert