Þjóðarleiðtogar um heim allan hafa minnst Jimmys Carters, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem lést í gærkvöldi 100 ára að aldri.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að 9. janúar verði Carter syrgður í Bandaríkjunum og hvetur hann Bandaríkjamenn til að fara í bænahús til þess að minnast Carters.
Carter var kjörinn 39. forseti Bandaríkjanna árið 1976 og var eitt kjörtímabil, en hann tapaði svo í forsetakosningum á móti Ronald Reagan 1980.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, sagði að Bandaríkjamenn ættu Carter mikið að þakka.
„Áskoranirnar sem Jimmy stóð frammi fyrir sem forseti komu á tímamótum fyrir landið okkar og hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að bæta líf allra landsmanna,“ sagði Trump í tilkynningu.
Fyrrverandi Bandaríkjaforsetar eins og Bill Clinton, George W. Bush og Barack Obama hafa einnig allir minnst Carters.
Barack Obama hældi Carter fyrir að kenna „okkur öllum hvað það þýðir að lifa lífi í náð, virðingu, réttlæti og þjónustu“.
Abdel Fattah al-Sisi, leiðtogi Egyptalands, hrósaði Carter fyrir hans hlut í að koma á friði milli Egyptalands og Ísraels, með hinum sögufrægu Camp David-friðarsamningnum árið 1978.
Isaac Herzog, forseti Ísraels, minntist einnig Carters fyrir hans hlut í samningunum. „Arfleifð hans verður skilgreind út frá skuldbindingu hans til að stuðla að friði milli þjóða,“ sagði Herzog.
Karl Bretakonungur sagði að eldmóður og auðmýkt Carters veitti mörgum innblástur og Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, þakkaði Carter fyrir hans vinnu í þágu friðar.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði að Bandaríkjamenn hefðu tapað ötulum baráttumanni fyrir lýðræðinu og að heimurinn hefði tapað sáttasemjara fyrir friði.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði að Carter hefði ráðlagt honum í gegnum tíðina og að þær ráðleggingar hafi alltaf verið hugulsamar.
Utanríkisráðuneyti Mexíkó kallaði dauða Carters „harmþrunginn missi“.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði að Carter yrði minnst fyrir þrautseigju og að hafa staðið með þeim sem minna mega sín í samfélaginu.
Jose Mulino, forseti Panama, minntist Carters með því að hrósa honum fyrir að hafa gefið Panama forræði yfir Panamaskurðinum sem Bandaríkjamenn byggðu. Þannig hefði Carter hjálpað Panama að ná fullveldi, að sögn Mulino.
Þótt margir þjóðarleiðtogar hafi í kveðjum sínum einblínt á valdatíma hans, frá 1977-1981, lagði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti áherslu á „óbilandi stuðning“ Carters við Úkraínu í stríðinu við Rússland.
Utanríkisráðuneyti Kína hefur einnig minnst Carters fyrir hans hlut í að efna til formlegra diplómatískra tengsla á milli Bandaríkjanna og Kína.