Bátsferðum hælisleitenda yfir Ermarsund fjölgaði

Ferðin yfir Ermarsund á smábátum getur verið lífshættuleg.
Ferðin yfir Ermarsund á smábátum getur verið lífshættuleg. AFP/Sameer Al-DOUMY

Fleiri hælisleitendur lögðu leið sína yfir Ermarsund til Bretlands á síðasta ári en árið 2023. Bátsferðunum fjölgaði enn frekar eftir að Verkamannaflokkurinn tók við völdum í landinu um mitt ár. 

The Telegraph greinir frá.

36.816 hælisleitendur lögðu leið sína yfir Ermarsund frá Norður-Frakklandi til Bretlands árið 2024 sem er 25% fjölgun frá árinu 2023.

29% fjölgun eftir að Starmer tók við

Bátsferðirnar yfir Ermarsund jukust enn frekar eftir að Verkamannaflokkur Keir Starmer tók við völdum í júlí.

Ef borið er saman saman fyrstu sex mánuði ársins, þegar Íhaldsflokkurinn var við völd, við fyrstu sex mánuði ársins 2023 þá er fjölgunin 19%.

Ef síðustu sex mánuðir ársins, eftir að Verkamannaflokkurinn tók við völdum, eru bornir saman við síðustu sex mánuði ársins 2023, þá er fjölgunin 29%.

Á allra síðustu mánuðum stjórnar Íhaldsflokksins samþykkti þingið að senda alla hælisleitendur sem kæmu yfir Ermarsund til Rúanda.

Starmer tilkynnti hins vegar á degi eitt í embætti að brottvísunaráætlunin væri ekki gild og að hann myndi frekar einbeita sér að því að takast á við menn og gengi sem smygla fólki.

Afganskir hælisleitendur flestir

Afganskir hælisleitendur voru fjölmennasti hópurinn á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 og voru 17 prósent af heildarfjöldanum.

Þar á eftir komu Víetnamar, sem voru 13 prósent af heildarfjöldanum, Íranir voru 12 prósent, og Sýrlendingar 12 prósent.

Um er að ræða næstmesta fjölda hælisleitenda sem kemur yfir Ermarsund í sögu Bretlands, en metið var slegið árið 2022.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands. AFP/Leon Neal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka