Macron: Hugur okkar hjá fjölskyldunum

Emmanuel Macron.
Emmanuel Macron. AFP/Ludovic Marin

Leiðtogar víða um heim hafa fordæmt árásina sem var gerð í New Orleans á gamlárskvöld þegar bíl var ekið inn í mannfjölda með þeim afleiðingum að 15 hið minnsta eru látnir og tugir særðir.

„New Orleans, sem á svo hlýjan stað í hjörtum Frakka, hefur orðið fyrir hryðjuverki,“ sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti á X þar sem hann skrifaði bæði á frönsku og ensku.

Louisiana var upphaflega frönsk nýlenda og var árásin gerð í hinu þekkta franska hverfi í borginni New Orleans.

Fólk á gangi framhjá lögreglubíl í New Orleans.
Fólk á gangi framhjá lögreglubíl í New Orleans. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

„Hugur okkar er hjá fjölskyldum fórnarlambanna og þeim sem særðust, ásamt bandarísku þjóðinni og við deilum sorg hennar,“ sagði Macron jafnframt.

Borgarstjóri Nice sendi samúðarkveðjur

Christian Estrosi, borgarstjóri Nice í Frakklandi sem lenti einnig í svipaðri árás árið 2016 sem varð 86 manns að bana, sendi einnig samúðarkveðjur.

„Harmleikurinn í New Orleans, systurborgar Nice, svipar á sársaukafullan hátt til okkar eigin...Hugur okkar er hjá fjölskyldunum og þeim sem voru keyrðir niður í miðjum hátíðarhöldum á gamlárskvöld,“ sagði hann á X.

Keir Starmer.
Keir Starmer. AFP/Leon Neal

„Þessi ofbeldisfulla árás í New Orleans er hræðileg,“ sagði breski forsætisráðherrann Keir Starmer á X.

„Hugur minn er hjá fórnarlömbunum, fjölskyldum þeirra, viðbragðsaðilum og bandarískum almenningi á þessum sorgartímum,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka