Rannsaka hvort sprengingin hafi verið hryðjuverk

Ökumaður bílsins lést í árásinni og hlutu sjö aðrir minniháttar …
Ökumaður bílsins lést í árásinni og hlutu sjö aðrir minniháttar áverka. AFP/Ethan Miller

Flugeldum, eldsneytisbrúsum og frekari sprengiefnum hafði verið komið fyrir í skotti Teslu-bifreiðarinnar Cybertruck sem sprakk fyrir utan Trump-hótel í Las Vegas í gær. Yfirvöld rannsaka hvort að um hryðjuverk hafi verið að ræða og er þá verið að rannsaka hvort sprengingin tengist bílaárás sem gerð var í New Orleans um áramótin.

AP-fréttastofan greinir frá.

Engin tengsl enn þá

Einn lést í árásinni og var það ökumaður bílsins en sjö aðrir hlutu minniháttar áverka.

Að sögn Jeremy Schwartz, fulltrúa FBI í Las Vegas, er nú verið að reyna að auðkenna ökumann bílsins og að því loknu verður rannsakað hvort atvikið hafi verið hryðjuverk.

Þá hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti upplýst að yfirvöld séu að rannsaka hvort tengsl séu á milli sprengingarinnar og bílaárásar sem gerð var í New Orleans á nýársnótt og varð 15 manns að bana.

Ítrekaði Biden þó að enn hafi engin tengsl hafi fundist enn sem komið er. 

Frá vettvangi sprengingarinnar.
Frá vettvangi sprengingarinnar. AFP/Ethan Miller

Kyrrstæður í 15-20 sekúndur fyrir sprenginguna

Vitað er hvaða einstaklingur tók bílinn á leigu í Colorado-ríki en nafninu verður haldið leyndu fyrir fjölmiðlum þar til yfirvöld hafa staðfest að um sama mann sé að ræða og lést í bílnum.

Myndband frá hleðslustöðvum Tesla hefur hjálpað yfirvöldum að sjá síðustu ferð bílsins sem var kominn til Las Vegas um hálf átta í gærmorgun.

Um klukkustund síðar var bíllinn kominn fyrir utan Trump-hótelið þar sem hann var kyrrstæður í um það bil 15-20 sekúndur áður en hann sprakk.

Á blaðamannafundi síðdegis í gær var svo sýnt myndband sem sýndi að komið hefði verið fyrir flugeldum, eldsneytisbrúsum ásamt öðrum sprengiefnum í skotti bílsins.

Þá hefur verið greint frá að takmarkaður skaði hafi orðið vegna hönnunar bílsins en hurðar bílsins voru enn á honum eftir sprenginguna sem gefur til kynna að sprengingin gat aðeins leitað upp í loft þegar bíllinn sprakk.

Tesla Cybetruck bifreið. Uppbygging bílsins gerði það að verkum að …
Tesla Cybetruck bifreið. Uppbygging bílsins gerði það að verkum að sprengingin gat aðeins farið upp í loft. AFP/Justin Sullivan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka