Nýtrúlofað par fannst látið í orlofshúsi í strandborginni Hoi An í Víetnam á annan í jólum.
Samkvæmt BBC uppgötvaði starfsfólk hússins lík hinnar bresku Gretu Marie Ottesen á rúmi í svefnherbergi á fyrstu hæð hússins. Hún var 33 ára.
Lík mannsins, hins 36 ára gamla Els Arno Quinton frá Suður-Afríku, fannst í öðru herbergi en hurðin að herberginu var læst innan frá.
Ekki liggur fyrir hver dánarorsök parsins eru en við bráðabirgðaskoðun fundust engin ummerki um innbrot né báru lík parsins merki um átök. Rannsókn í málinu stendur enn yfir.
Otteson starfaði sem samfélagsmiðlastjóri og Quinton sem kaffibarþjónn, tónlistarmaður og svokallaður beinstreymari (e. livestreamer) en parið tilkynnti um trúlofunina með Youtube-myndbandi þann 11. desember síðastliðinn.
Parið var skráð með „tímabundna búsetu til lengri tíma“ í orlofshúsinu og hafði dvalið þar frá síðasta sumri. Lögreglan er sögð hafa fundið tómar vínflöskur á víð og dreif í herbergjunum.
Breska utanríkisþjónustan hefur verið í samskiptum við yfirvöld á svæðinu og kveðst nú gera sitt besta til að styðja við rannsókn lögreglunnar í málinu og styðja við fjölskyldu konunnar í Bretlandi.