Snjókoma setur samgöngur úr skorðum á Englandi

Búist er við því að 20 til 40 sentimetra snjólag …
Búist er við því að 20 til 40 sentimetra snjólag falli þar sem hvað mest snjóar. Ljósmynd/Colourbox

Veðurviðvaranir hafa verið gefnar út fyrir stóran hluta af Englandi og Wales um helgina vegna mikillar snjókomu og kulda í kortunum. Talið er að veðrið muni setja samgöngur úr skorðum og jafnvel valda rafmagnsleysi þannig að einhverjar afskekktari byggðir kunna að verða sambandslausar. BBC greinir frá.

Hitatölur á suðurhluta Englands fóru niður í -8,1 gráður þar sem kaldast var snemma í morgun, en ekki hefur mælst meira frost á Englandi það sem af er vetri.

Samkvæmt veðurspá BBC má búast við því að allt að 20 til 40 sentímetra snjólag falli bæði á norðurhluta Englands og suðurhluta Skotlands frá laugardegi til mánudags. Þá má einnig búast við frostþoku.

Fólk er hvatt til þess að fara gætilega í kuldanum og helst ekki vera mikið á ferli þegar frostið er sem mest. Þá er heilbrigðisstarfsfólk hvatt til að vera á varðbergi og gæta sérstaklega að sjúklingum sem eru hvað viðkvæmastir fyrir kuldanum, jafnvel hafa samband við fólk eða eða líta til með því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert