Karl Bretakonungur er miður sín vegna andláts Bretans Edward Pettifer sem lést í hryðjuverkaárásinni í New Orleans á nýársdag. Pettifer var stjúpsonur Alexöndru Pettifer, eða Tiggy, sem gætti Vilhjálms og Harry Bretaprinsa er þeir voru börn.
Þessu greinir BBC frá og herma heimildir miðilsins að Karl hafi haft samband við fjölskyldu Pettifer og vottað þeim persónulega samúð sína.
Pettifer var 31 árs gamall er hann lést í árásinni sem varð að minnsta kosti 14 að bana.
Hann starfaði sem leiðsögumaður á Íslandi nokkur sumur.
Pettifer var elsti sonur Charles Pettifer og Camilla Wyatt. Þau áttu annan son, hinn 29 ára Harry, áður en þau skildu um miðbik tíunda áratugarins.
Charles giftist síðan Alexöndru Legge-Bourke sem gætti prinsanna tveggja á árunum 1993 til 1999. Telegraph greinir frá því að Alexandra hafi veitt prinsunum mikinn stuðning er Díana prinsessa, móðir þeirra, lést árið 1997.
Charles og Alexandra eignuðust tvo syni, hinn 22 ára gamla Tom, sem er guðsonur Vilhjálms, og hinn 23 ára Fred, sem er guðsonur Harry. Tom var hirðsveinn í brúðkaupi Vilhjálms og Katrínar árið 2011. Þá var hann gestur í brúðkaupi Harry og Meghan árið 2018.
Alexandra rekur nú gistiheimili í Wales og kennir gestum stangveiði. Hún hefur verið í góðu sambandi við Vilhjálm og Harry.
Líkt og stjúpmóðir hans var Edward mikill veiði- og skíðamaður.
Fjölskylda hans lýsti honum sem „dásamlegum syni, bróður, barnabarni, frænda og vini svo margra“.
„Við munum öll sakna hans mikið. Hugur okkar er hjá hinum fjölskyldunum sem hafa misst ástvini sína í þessum voðaverkum. Við biðjum um frið til að syrgja Ed,“ sagði í yfirlýsingu fjölskyldunnar.