Segir Hamas reiðubúin að sleppa 34 gíslum

Embættismaðurinn segir samtökin búin að samþykkja lista yfir gísla sem …
Embættismaðurinn segir samtökin búin að samþykkja lista yfir gísla sem megi sleppa. AFP

Háttsettur embættismaður Hamas-hryðjuverkasamtakanna segir samtökin reiðubúin að sleppa 34 gíslum í fyrsta áfanga hugsanlegs fangaskiptasamnings við Ísrael, að því er hann sagði í samtali við AFP-fréttaveituna í dag.

Embættismaðurinn segir samtökin búin að samþykkja að sleppa gíslunum samkvæmt lista sem ísraelsk stjórnvöld hafa lagt fram.

Skrifstofa Benjamíns Netanjahús, forsætisráðherra Ísraels, segir Hamas enn eiga eftir að leggja fram lista yfir gísla til sín í sambandi við hugsanlegan fangaskiptasamning.

„Hamas-samtökin hafa samþykkt að sleppa föngunum 34, hvort sem þeir eru á lífi eða látnir. Hópurinn þarf þó að fá viku til að eiga samskipti við fangaverðina og bera kennsl á þá sem eru á lífi og þá sem eru látnir,“ sagði embættismaðurinn.

Af 251 sem var tekinn höndum í árásinni 7. október árið 2023 eru 96 gíslar enn á Gasasvæðinu. Ísraelsmenn segja 34 af þeim látna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert