Búist við afsögn Trudeaus

Kanadíski forsætisráðherrann Justin Trudeau.
Kanadíski forsætisráðherrann Justin Trudeau. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, mun að öllum líkindum tilkynna afsögn sína á blaðamannafundi sem hefst von bráðar.

Heimildarmaður innan kanadísku ríkisstjórnarinnar sagði við AFP að ráðherrann hefði ákveðið að stíga til hliðar en það lægi þó ekki fyrir hvenær það myndi gerast.

„Þetta er ákveðið, hann mun fara. Það á bara eftir að koma í ljós hvenær það verður,“ sagði heimildarmaðurinn.

Ráðherra þar til nýr leiðtogi verði kjörinn

Sérfræðingar telja að Trudeau muni hugsanlega stíga til hliðar sem formaður Frjálslynda flokksins en halda sæti sínu sem forsætisráðherra á meðan flokkurinn velur sér nýjan leiðtoga, en það ferli gæti tekið nokkra mánuði.

Fylgi Frjálslynda flokksins hefur dregist saman síðustu mánuði. Í desember steig Chrystia Freeland, fyrrverandi fjármálaráðherra og varaforsætisráðherra Trudeau, til hliðar.

Í harðorðu afsagnarbréfi sakaði Freeland Trudeau um að beita pólitískum brellum til að friða kjósendur í stað þess að koma jafnvægi á fjármál ríkisins í aðdraganda hugsanlegs tollastríðs við Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert