Múte B. Egede, formaður grænlensku landstjórnarinnar, segir að Grænlendingar þurfi á næsta kjörtímabili að taka mikilvæg skref í átt að sjálfstæði frá Danmörku. Þjóðin þurfi að kjósa um framtíð sína.
Grænlendingar sjá sér nú leik á borði í ferðaþjónustu, sem gæti gert efnahag landsins sjálfbæran og stuðlað að því að þeir þurfi ekki lengur að reiða sig á styrki frá nýlenduríkinu. Fleiri Grænlendingar eru nú hlynntir endurinngöngu í Evrópusambandið en áður samkvæmt skoðanakönnunum og langflestir vilja auka samstarf við Ísland.
„Það er kominn tími á að við stígum þau mikilvægu skref í átt að sjálfstæðu landi,“ sagði Egede í nýársávarpi sínu en hann er formaður vinstriflokksins Samfélags fólksins (Inuit Ataqatigiit) sem vill sjálfstæði.
Í ár gengur grænlenska þjóðin til þing- og sveitarstjórnarkosninga en í ræðu sinni virtist Egede ýja að því að atkvæðagreiðsla um sjálfstæði landsins þyrfti að vera kosningamál á næsta kjörtímabili eða jafnvel að þjóðin gæti kosið um sjálfstæði samhliða þingkosningum.
Grænland er með sjálfstjórn en lýtur enn danskri stjórnarskrá. Þó að Grænlendingar geti kosið um sjálfstæði þyrfti danska þingið að samþykkja niðurstöðuna, samkvæmt dönsku stjórnarskránni. En grænlensk stjórnarskrá er nú í fæðingu.
„Við höfum á síðasta kjörtímabili sett í gang vinnu að drögum að stjórnarskrá fyrir Grænland, og starfshópur heldur áfram með vinnuna. En við þurfum að fá mikilvægustu leikmennina inn í vinnuna að stjórnarskrá Grænlands. Og það er grænlenska þjóðin,“ sagði Egede, sem hefur verið formaður landstjórnarinnar frá 2018.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag