Karlmaður með hníf í hendi var handtekinn fyrir utan skrifstofu forsætisráðherra Belgíu í Brussel í morgun eftir að hafa lent í átökum við öryggisverði.
Enginn særðist í átökunum sem urðu klukkan tíu í morgun, að sögn lögreglu sem rannsakar nú atvikið.
„Ég skila innilegum þökkum til herlögreglunnar fyrir skjót viðbrögð,“ sagði Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, sem var þó ekki á skrifstofunni þegar atvikið átti sér stað.
„Ég er feginn að enginn slasaðist. Við fylgjumst náið með málinu ásamt lögreglunni.“
Belgískir miðlar greindu frá því að hinn grunaði, sem var ekki nafngreindur, hefði reynt að brjótast inn á skrifstofu forsætisráðherrans.
Yfirvöld sögðu manninn hafa verið ógnandi við öryggisverðina sem yfirbuguðu manninn áður en lögreglan kom á staðinn.