Fær umboðið eftir mánaðabið

Inn fyrir dyrnar. Herbert Kickl fékk loks boð á fund …
Inn fyrir dyrnar. Herbert Kickl fékk loks boð á fund í Hofburg-höllinni í gær og um leið stjórnarmyndunarumboðið. AFP

Forseti Austurríkis, Alexander Van der Bellen, hefur fengið formanni Frelsisflokksins umboð til myndunar næstu ríkisstjórnar. Þetta gerði hann í gær, rúmum þremur mánuðum eftir að flokkurinn bar sigur úr býtum í þingkosningunum þann 29. september.

Braut forsetinn um leið blað í sögu Austurríkis, en þetta verður í fyrsta skipti sem flokkurinn leiðir stjórnarmyndunarviðræður. Hann hefur þó nokkrum sinnum áður átt sæti í ríkisstjórn.

Forsetinn rauf hefðina

Frelsisflokkurinn var stofnaður af fyrrverandi nasistum og er nú undir forystu Herberts Kickls, sem kallað hefur sjálfan sig Volkskanzler, eða þjóðarkanslarann – nafngift sem síðast var notuð af Adolf Hitler.

Undir stjórn Kickls hlaut flokkurinn nærri 29% atkvæða í haust, mest allra flokka.

Kickl fékk þó ekki umboð til stjórnarmyndunar að kosningum loknum, eins og hefð hafði verið fyrir, heldur hvatti forsetinn formenn stærstu flokkanna til að ræða saman þess í stað.

Erfið ákvörðun. Forsetinn hafði reynt að halda Kickl frá stjórn.
Erfið ákvörðun. Forsetinn hafði reynt að halda Kickl frá stjórn. AFP

Viðræður runnu út í sandinn

Svo fór að leiðtogi Þjóðarflokksins, Karl Nehammer, fékk umboðið undir lok október, en flokkur hans hefur leitt ríkisstjórn frá árinu 2017, fyrst með Frelsisflokknum og svo Græningjum þar til nú.

Þegar forsetinn loks léði Nehammer umboðið sagði hann það ljóst að Kickl gæti ekki fundið samstarfsflokk, sem myndi leyfa honum að verða kanslara. Allir aðrir þingflokkar höfðu þá einnig útilokað samstarf við Frelsisflokkinn á meðan hann væri undir forystu Kickls.

„Nú hefur óvenjuleg staða komið upp. Það er alveg nýtt að hafa sigurvegara sem enginn annar flokkur virðist vilja stjórna með,“ sagði Van der Bellen.

Gekk Nehammer þá til viðræðna við formenn Sósíaldemókrata og frjálslynda flokksins NEOS, sem stóðu svo yfir í rúma tvo mánuði, eða þar til þær runnu út í sandinn fyrir helgi.

Loks tilkynnti Nehammer á laugardag að hann hygðist víkja úr embætti kanslara ríkisins og jafnframt segja af sér formennsku flokks síns. Hann hafði eins og formenn annarra flokka útilokað að starfa með Frelsisflokknum undir stjórn Kickls.

Forsetinn veitti því Kickl umboðið í gær, eftir að hafa reynt að halda honum utan stjórnarmyndunar frá því að úrslit kosninganna urðu ljós.

Fólk á gangi um hallargarð Schönbrunn í Vínarborg.
Fólk á gangi um hallargarð Schönbrunn í Vínarborg. AFP

Ákvörðunin ekki auðveld

Van der Bellen hefur enda látið í ljós efasemdir um Kickl, og um leið lofað að tryggja að mynduð verði ríkisstjórn sem virði „grundvallarstoðir þessa frjálslynda lýðræðisríkis“.

Sjálfur hefur Kickl kallað forsetann „elliæra múmíu“.

„Herra Kickl telur sig geta fundið lausnir sem virka, og hann vill þessa ábyrgð,“ sagði Van der Bellen eftir stundarlangan fund sinn með formanninum í Hofburg-höllinni í gær.

„Ég hef þess vegna sett honum það verkefni að hefja viðræður við Þjóðarflokkinn í tilraun til að mynda ríkisstjórn,“ bætti hann við en tók fram að þessi ákvörðun hefði ekki verið auðveld.

Þjóðarflokkurinn hlaut rúmlega 26% atkvæða og tapaði 20 þingsætum, á meðan Frelsisflokkurinn fjölgaði þingsætum sínum um 26.

Árangurinn segja stjórnmálaskýrendur að rekja megi til óánægju kjósenda með innflytjendamál, stríðið í Úkraínu og aðgerðir stjórnvalda gegn faraldri kórónuveirunnar.

Nokkrir fyrrverandi foringjar í SS-sveitum nasista stofnuðu Frelsisflokkinn eftir síðari heimsstyrjöldina og hefur hann lengi verið á meðal öflugustu þjóðernisflokkanna í Evrópu.

Herbert Kickl formaður Frelsisflokksins ávarpaði nýtt þing í Vín í …
Herbert Kickl formaður Frelsisflokksins ávarpaði nýtt þing í Vín í lok október. AFP

Yrði drjúgur meirihluti

Alls þarf 92 þingsæti fyrir meirihluta í neðri deild austurríska þingsins. 57 sæti Frelsisflokks og 51 sæti Þjóðarflokks ættu því að nægja fyrir drjúgan meirihluta. Og flokkarnir, báðir á hægrivængnum, hafa áður starfað saman. Síðast árin 2017 til 2019.

Síðasta samstarf þeirra endaði þó ekki giftusamlega, heldur með þingkosningum sem boðað var til í skyndi eftir að hneyksli skók ríkisstjórn flokkanna, eins og rifjað var upp á mbl.is í október.

Sebastian Kurz, þá kanslari Austurríkis og formaður Þjóðarflokksins, boðaði til kosninganna eftir að varakanslarinn Heinz-Christian Strache formaður Frelsisflokksins sagði af sér. Fjölmiðlar höfðu birt myndskeið þar sem Strache sást ræða við konu sem þóttist vera frænka rússnesks auðkýfings.

Hermt var að myndskeiðið hefði verið tekið upp á laun á spænsku eyjunni Ibiza í júlí 2017.

Konan sagðist vera að leita að fjárfestingartækifærum í Austurríki og bauðst til að kaupa helmingshlut í dagblaðinu Kronen Zeitung til að breyta ritstjórnarstefnu þess og sjá til þess að það styddi Frelsisflokkinn. Strache sagði að ef hún gerði þetta myndi hann sjá til þess að fyrirtæki hennar fengi samninga um opinberar framkvæmdir.

Hann kvaðst vilja breyta „fjölmiðlalandslaginu“ í Austurríki og fara að dæmi Viktors Orbáns forsætisráðherra Ungverjalands sem hafði þá þegar hert tök stjórnarflokksins á ungverskum fjölmiðlum til að koma í veg fyrir gagnrýni á ráðamenn landsins.

Alexander Van der Bellen ávarpaði blaðamenn í Hofburg-höllinni á mánudag.
Alexander Van der Bellen ávarpaði blaðamenn í Hofburg-höllinni á mánudag. AFP

Kickl rekinn úr ríkisstjórn

Strache kvaðst telja að fylgi Frelsisflokksins gæti orðið allt að 34% með stuðningi Kronen Zeitung ef Rússar keyptu blaðið.

Lagði hann til við konuna að hún stofnaði byggingarfyrirtæki sem fengi alla verktökusamninga sem stærsta byggingarfyrirtæki Austurríkis hefði nú við ríkisstofnanir landsins.

Hann nefndi einnig nokkra blaðamenn, sem hann vildi að létu af störfum fyrir Kronen Zeitung, og fimm aðra sem yrðu ráðnir í þeirra stað.

Myndskeiðið varð til þess að Strache sagði af sér sem varakanslari og formaður Frelsisflokksins. „Þetta var dæmigerð karlmennskuhegðun undir áhrifum áfengis og ég vildi ganga í augun á þessari þokkafullu konu sem var gestgjafi minn,“ sagði hann. „Ég hegðaði mér eins og unglingur.“

Hneykslismálið varð enn fremur til þess að Kickl, sem þá var innanríkisráðherra, var rekinn úr ríkisstjórninni, sem aftur leiddi til þess að aðrir ráðherrar Frelsisflokksins sögðu af sér embættum sínum, en þeir fóru með varnarmál, utanríkismál, samgöngu- og félagsmál.

Kickl gegndi einmitt embætti innanríkisráðherra þegar fulltrúar ríkisstjórnarinnar réðust inn í leyniþjónustu landsins árið 2018 og gerðu þar húsleit. Beið orðspor hennar um leið mikinn hnekki.

Þá láku á síðasta ári upplýsingar frá embætti saksóknarans í Vín, um að rússneskir flugumenn tengdir Frelsisflokknum væru að störfum í borginni. Að því var vikið í ítarlegri umfjöllun mbl.is í júlí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert