Þó að Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hafi í gær tilkynnt að hann myndi segja af sér sem formaður Frjálslynda flokksins og sem forsætisráðherra þá gæti vel verið að hann sinni báðum embættum í nokkra mánuði í viðbót.
Hann mun stíga til hliðar eftir að flokkurinn hefur valið sér nýjan leiðtoga, en það gætu verið fáeinir mánuðir þar til formannskosningar fara fram innan Frjálslynda flokksins.
Í gær óskaði hann jafnframt eftir því að hlé yrði gert á þinginu og að það kæmi aftur saman 24. mars.
Líklega mun flokkurinn þurfa að finna sér nýjan leiðtoga áður en þing kemur saman aftur.
Nýir demókratar hafi varið ríkisstjórn Frjálslyndra vantrausti en leiðtogi flokksins, Jagmeet Singh, sagði í gær að það skipti ekki máli hvort að það tæki nýr leiðtogi við hjá Frjálslynda flokknum, NDP myndi samþykkja vantraust.
„Þeir eiga ekki skilið annað tækifæri,“ sagði hann.
Næstu þingkosningar verða að fara fram í Kanada eigi síðar en í október. Líklegt er að kosið verði áður en það gerist ef og þegar vantrauststillaga verður samþykkt á þinginu í vor.
Ef kosið yrði núna benda kannanir til þess að Íhaldsflokkurinn undir stjórn Pierre Poilievre myndi vinna stórsigur og fá stóran meirihluta á þinginu.
Samkvæmt könnunum þá nýtur Frjálslyndi flokkurinn aðeins um 23% fylgis á sama tíma og Íhaldsflokkurinn mælist með um 43% fylgi.
„Justin Trudeau segist vera „baráttumaður“. Af hverju ekki að nýta lögbundinn rétt hans til að boða til kosninga núna og mæta mér? Af því að hann er of veikur og hræddur. Þjóðin er því komin í þrot með veikburða forsætisráðherra á meðan Frjálslyndir berjast um völd sín á milli,“ skrifar Poilievre á X.