Samfélagsmiðillinn Meta, sem er móðurfélag Facebook, hefur gert breytingar á því hvernig fyrirtækið hefur eftirlit með því efni sem er birt á miðlum þess. Meta hefur m.a. aflagt staðreyndavakt í Bandaríkjunum, sem er meiri háttar stefnubreyting og í takti við áherslur Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna.
„Við ætlum að losa okkur við þá sem hafa verið á staðreyndavaktinni, þar sem þeir hafa verið of hlutdrægir pólitískt séð og hafa dregið meira úr trausti fremur en að efla það, þá sér í lagi í Bandaríkjunum,“ segir Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Meta, í færslu sem hann birti.
Zuckerberg segir að þess í stað muni samfélagsmiðlarnir Facebook og Instagram beita svipaðri aðferðafræði og samfélagsmiðilinn X gerir, þar sem notendur miðilsins geta bætt við upplýsingum eða athugasemdum við færslur til að útskýra mál betur eða setja þau í samhengi. Fyrstu skrefin í þessa veru verða stigin í Bandaríkjunum.
Tilkynning Meta, sem kom mörgum á óvart, er í takti við þær gagnrýnisraddir sem Repúblikanaflokkur Trumps og Elon Musk, sem er eigandi X, hafa lengi haft uppi um að fyrrgreindar staðreyndavaktir beini spjótum sínum að hægrisinnuðum röddum í mun meiri mæli. Það hefur leitt til þess að ríki á borð við Flórída og Texas hafa dregið úr slíku eftirliti á samfélagsmiðlum.
Zuckerberg segir að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hafi verið eins konar menningarlegur vendipunktur þar sem tjáningarfrelsið vegi nú þyngra en eftirlit.
Zuckerberg hefur undanfarið reynt að sættast við Trump í kjölfar kosningaúrslitanna, en hann hefur m.a. gefið eina milljón dala í vígslusjóð hans.
Trump hefur gagnrýnt Meta og Zuckerberg harðlega árum saman, en hann segir fyrirtækið ekki hafa verið óvilhallt gagnvart sér.
Trump var vikið af Facebook í kjölfar árásarinnar á bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021, en hann fékk aftur á móti aðganginn sinn aftur í ársbyrjun 2023.
Þá snæddi Zuckerberg kvöldverð heima hjá Trump í Mar-a-Lago í nóvember til að styrkja tengslin enn fremur.