Starfsmaður í matvöruversluninni Maxi Ica í Svíþjóð var stunginn til bana í gærkvöldi. Einn hefur verið handtekinn og ekki er talið að tengsl séu á milli gerandans og fórnarlambsins.
Klukkan 19.41 í Norsborg, suður af Stokkhólmi, fékk lögreglan útkall vegna stunguárásar. Samkvæmt heimildum Aftonbladet var fórnarlambið kona á sextugsaldri sem starfaði í matvöruversluninni.
Hún var send með sjúkraflugi á sjúkrahús en ekki tókst að bjarga lífi hennar.
Hinn grunaði er 25 ára gamall samkvæmt upplýsingum Aftonbladet og er um að ræða tilefnislausa árás. Maðurinn gekk upp að konunni og byrjaði að stinga hana en að svo stöddu er ekki vitað til þess að nein tengsl séu á milli þeirra.
Aftonbladet segir að lögreglunni gruni að maðurinn sé haldinn geðsjúkdómi.
Öryggisvörður náði að halda aftur af manninum þar til lögregla kom á vettvang og handtók hann.
Lagt hefur verið hald á hníf og bíl á vettvangi.
„Þetta átti sér stað inni í versluninni. Að svo stöddu höfum við ekki fundið nein tengsl milli þeirra sem áttu hlut að máli. Ekkert bendir til þess að þau hafi þekkt hvort annað. Þetta er í frekari rannsókn,“ segir Daniel Wikdahl, talsmaður hjá lögreglunni.