Minnst tveir eru látnir og fjöldi slasaðra í Eaton-brunanum nálægt borginni Pasadena í Los Angeles-sýslu, segir yfirmaður brunavarna í Los Angeles-sýslu.
Eldurinn hefur nær tvöfaldast að stærð og nær nú yfir 2.227 hektara. Fjöldi manns hefur einnig særst í eldunum.
Yfirvöld í Los Angeles héldu blaðamannafund fyrir skemmstu og veittu nýjustu upplýsingar um stöðu mála. Kathryn Barger, borgarfulltrúi í Los Angeles, biðlaði til íbúa að fara eftir fyrirmælum viðbragðsaðila.
„Þetta er ekki æfing,“ sagði Berger á fundinum.
Slökkviliðið hefur engum tökum náð á eldunum fjórum og segir aðstæður gríðarlega erfiðar vegna mikils þurrks og vindhraða á svæðinu. Búið er að ráða niðurlögum fimmta eldsins sem kom upp í Riverside, skammt frá Los Angeles-borg, en eldurinn var mun minni en hinir.
Robert Luna fógeti í Los Angeles-sýslu segir að yfirvöld einbeiti sér að því að bjarga mannslífum fram yfir allt annað og vinni nú að því að flytja fólk af heimilum sínum.
Rýmingarskipanir eru í gildi eins og er í Altadena, Pasadena og á nærliggjandi svæðum og gilda fyrir um 32.500. Til viðbótar hafa um 38.600 íbúar hlotið rýmingarviðvörun.
Varaði Luna einnig óprúttna aðila við því að nýta tækifærið til að brjótast inn á yfirgefin heimili í þeim tilgangi að fara þar ránshendi og benti á að lögreglan hefði handtekið tvo einstaklinga fyrir slíkt athæfi í morgun.