Réðst gegn eigin samstarfsmönnum með SMS-skeyti

Mynd af skilaboðunum sem líta áttu út fyrir að vera …
Mynd af skilaboðunum sem líta áttu út fyrir að vera frá konunni öldruðu en voru að öllum líkindum frá marokkóskum samstarfsmanni mannræningjanna. Annar þeirra sést svo hægra megin þar sem hann spilar lúdó við konuna á hótelherbergi í Dúbaí þar sem mennirnir héldu henni. Ljósmyndir/Norska lögreglan

Það var samdægurs, 27. apríl í fyrravor, sem lögreglunni í Ósló bárust SMS-skilaboð með örvæntingarfullri hjálparbeiðni og DNB-bankinn setti sig í samband við hana með grunsemdir um að eitthvað væri bogið við hreyfingar á bankareikningi áttræðrar norskrar konu.

Bankinn hafði vissulega lög að mæla og eru tveir menn á þrítugsaldri nú ákærðir fyrir mannrán og stórfelld fjársvik með því að hafa dulbúið sig sem lögreglumenn og farið að heimili konunnar í Asker 10. apríl í fyrra þar sem þeir gáfu sig út fyrir að vera frá efnahagsbrotalögreglunni Økokrim. Tjáðu þeir fórnarlambi sínu að verið væri að svindla á því og þeir væru komnir til að aðstoða. Fjallað var um málið hér á mbl.is.

Fóru leikar svo að mennirnir – í samstarfi við fleiri sem þó eru ekki ákærðir í þessu máli – rændu konunni, fluttu hana til Dúbaí og héldu henni þar í þrjár vikur á meðan þeir tæmdu reikninga hennar.

SMS-skilaboðin og upplýsingarnar frá bankanum urðu til þess að hægt var að koma konunni til bjargar áður en skaðinn varð meiri, en var hann þó þegar umtalsverður, 5,6 milljónir norskra króna, jafnvirði tæpra 70 íslenskra milljóna, hurfu af reikningum hennar í apríl síðastliðnum. Bætti DNB-bankinn konunni tjónið með því að taka það alfarið á sig, en tæknimönnum bankans hefur enn ekki tekist að finna eina krónu af þýfinu, svo vandlega tókst svikahröppunum að dylja slóð fjárins.

„Vitum að fleiri koma að þessu máli“

SMS-skilaboðin telur lögregla víst að hafi komið frá einum samstarfsmanna hinna tveggja, marokkóskum manni sem ekki hafi fengið það sem honum bar af þýfinu og því ákveðið að spilla aðgerðinni. Útbjó hann eftirlíkingu af símanúmeri konunnar, „spoof“ sem kallað er, og sendi boðin úr því. Réð lögregla þetta af því að annar tölustafur norska landsnúmersins 47 var rangur. Í skilaboðunum sagði, þýtt úr norsku:

Óþekktir menn halda mér fanginni í Dúbaí

Vinsamlegast hjálpið mér, ég hef slæma tilfinningu og er mjög hrædd

„Kenningin er að misklíð hafi komið upp og hann hafi ætlað sér að láta grípa þá,“ sagði yfirlögregluþjónn, sem er eitt vitna málsins, fyrir rétti.

„Við vitum að fleiri koma að þessu máli og þess vegna eru þeir eftirlýstir, en þeir halda sig sennilega á ólíkum stöðum erlendis,“ segir Eindride Kjørri saksóknari við norska ríkisútvarpið NRK.

Hvers vegna spurði bankinn einskis?

Meðal gagna málsins eru myndir og myndskeið af mönnunum sem sýna þá ásamt konunni áttræðu í Dúbaí, meðal annars þar sem þeir fagna þýfinu. Eru mennirnir ákærðir fyrir brot gegn hinni svokölluðu mafíugrein (n. mafiaparagrafen) í norsku hegningarlögunum sem sem heimilar refsiþyngingu séu sakamál sprottin af skipulagðri glæpastarfsemi. Gætu þeir átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi hvor um sig.

Að sögn verjanda annars mannanna, Cecilie Nakstad, kveður hún þá hafa sætt miklum þrýstingi af hálfu höfuðpauranna, bakmannanna svokölluðu. Spyr Nakstad hvers vegna viðvörunarbjöllur hafi ekki hringt fyrr í kerfinu, en stórar upphæðir sem fóru út af reikningum konunnar í verslunum gullsmiða í Dúbaí hefðu átt að vekja grunsemdir. Hún spyr hvernig DNB hafi getað hleypt viðskiptum fyrir milljónir í gegn án þess að spyrja nokkurs.

„Mér er ekki kunnugt um að neitt hafi verið að kerfinu. Það gæti tengst því að við höfðum fengið upplýsingar um það áður að hún var í fríi í Dúbaí,“ segir heimildarmaður NRK sem starfar í svikadeild DNB. „Viðskiptavinir okkar eru margir. Í tilfellum sumra þeirra er engin nýlunda að mikið fé sé notað í fríum,“ segir hann enn fremur.

Neita sök að hluta

Spilaborg mannræningjanna hafi þó hrunið þegar þjónustuver bankans hafði samband við hana og fékk þær upplýsingar að hún væri með norskum lögreglumönnum í Dúbaí að upplýsa svikamál.

Hinn verjandi málsins, Rikke de Vibe, kveður sinn mann játa sök að hluta. Hann játi fjársvikin og heildarupphæðina í þeim, en neiti sök í þeim hluta ákærunnar er snýr að frelsissviptingu og því að hann tilheyri skipulögðum glæpasamtökum. Meðákærði tekur sömu afstöðu að sögn síns verjanda, Nakstad.

NRK

NRK-II (rænt og flutt til Dúbaí)

Nettavisen

Budstikka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert