Systir Sam Altman, forstjóra OpenAI, hefur höfðað mál á hendur bróður sínum þar sem því er haldið fram að hann hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi reglulega á árunum 1997 til 2006.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Að hennar sögn á kynferðisofbeldið að hafa byrjað þegar hún var þriggja ára og bróðir hennar tólf ára.
Í sameiginlegri yfirlýsingu frá Altman, móður hans og tveimur bræðrum, á miðlinum X neitar hann öllum ásökunum systur sinnar.
Segir í yfirlýsingunni að systirin, Ann Altman, eigi við geðheilbrigðisvandamál að stríða sem reyni mikið á fjölskylduna.
„Þetta ástand veldur gífurlegum sársauka fyrir alla fjölskyldu okkar,“ segir í yfirlýsingunni.
Í málsókninni segir að kynferðisofbeldið hafi falið í sér nauðgun og er farið fram á að réttarhöld með kviðdómi verði haldin.
Þá er einnig farið fram á að Altman greiði systur sinni 75.000 dollara í skaðabætur, eða yfir 10 milljónir íslenskra króna.