Prófessor í heimskauta- og þjóðarrétti segir mikilvægt að taka alvarlega orð Donalds Trump verðandi forseta Bandaríkjanna, um að útiloka ekki beitingu hervalds til að komast yfir Grænland.
Þá þurfi að hlusta vel á það sem landsstjórn Grænlands hafi um málið að segja.
Þó verði að hafa í huga að Trump hafi verið spurður út í það af blaðamanni hvort hann útilokaði beitingu hersins til að ná Grænlandi og Panama á sitt vald.
„Það gæti vel verið að hann útiloki ekki að beita hervaldi í Panama, en hafi ekki hugsað svo mikið um Grænland. Kannski hefur hann ekki hugsað mikið um málið,“ segir Rachael Lorna Johnstone, prófessor í heimskauta- og þjóðarrétti, við Háskólann á Akureyri og Háskólann á Grænlandi.
Í desember sagði Trump á miðli sínum Truth Social að eignarhald Bandaríkjanna á Grænlandi væri nauðsyn í þágu alheimsfriðar og öryggis. Það var svo í gær sem hann lét þau orð falla að hann útlokaði ekki að beita hervaldi til að fá sínu framgengt.
„Ég var frekar hissa þegar ég sá þetta frá Trump fyrir jól að hann teldi mikilvægt fyrir Bandaríkin að hafa stjórn og eignarhald yfir Grænlandi, en hann hefur áður talað um að kaupa Grænland. En svörin frá Grænlandi og Danmörku voru skýr, að landið væri ekki til sölu og að við værum ekki á nýlendutímabilinu. Það eru Grænlendingar sem ætla að stjórna sínu landi og taka ákvörðun um samstarf,“ segir Rachael.
Það hafi vakið athygli hennar að áherslur Trump hafi breyst. Nú tali hann um eignarhald og stjórn yfir Grænlandi. Svo í kjölfarið um hugsanlega beitingu hervalds. Það sé eitthvað sem verði að skoða af alvöru.
Hún segir ummælin hafa vakið mikla athygli á Grænlandi og að þau komi til með að lita umræðuna fram að kosningum í vor. Erfitt sé þó að segja til um hvað gerist næst.
„Ég held það sé mjög mikilvægt að hlusta á hvað grænlenska ríkisstjórnin segir um þetta. Þeir hafa vald til að ákveða framtíð sína. Það er ekki Bandaríkjanna eða Danmerkur að segja hvað þeir eiga að gera.“
Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, hafi kallað eftir því að fleiri skref verði tekin í átt að sjálfstæði og hefur starfshópur unnið að drögum að stjórnarskrá landsins.
Margir Grænlendingar séu ósáttir með tengslin við Danmörku, en þeir hafi þó ekki áhuga á að hoppa frá Dönum í fang Bandaríkjamanna.
„Margir þeirra eru kannski búnir að fá nóg af því að vera dönsk nýlenda og vilja ekki vera nýlenda undir Bandaríkjunum heldur.“
Þá eigi Trump ekki sérstaklega góða sögu af framkomu í garð frumbyggja í Bandaríkjunum.
Hún bendir á að Grænland sé ekki í Evrópusambandinu, en sem hluti af konungsríki Danmerkur hafi Grænland sterk tengsl við sambandið. Sérstakur samningur sé í gildi á milli Grænlands og ESB varðandi samstarf.
Þá hefur Mette Frederikssen, forsætisráðherra Danmerkur, ítrekað sagt að Grænland tilheyri Grænlendingum.
Jean-Noel Barrot, utanríkisráðherra Frakklands, tjáði sig einnig um ummæli Trump fyrr í dag, þar sem hann varaði við því að hóta ríki innan landamæra Evrópusambandsins. Sambandið myndi ekki leyfa öðrum þjóðum að ráðast á landamæri sín, sama um hvaða þjóðir væri að ræða.
Þá minnist Rachael á heimsókn Donald Trump yngri til Grænlands í gær. Ekki var um opinbera heimsókn að ræða og hitti hann ekki neina ráðamenn. Heimsóknin hefur engu að síður vakið athygli vegna ummæla Trump og frestaði Múte fundi sínum með Friðriki Danakonungi vegna hennar.
„Svo þegar Trump yngri fór í heimsókn í gær, ég hef skoðað það af alvöru hvað fólk á Grænlandi segir, og það er áfram skýrt svar frá Grænlandsstjórn um að þeir ætli að taka ákvörðun um sína framtíð.“
Rachael segir mjög óljóst hverja Trump yngri hitti, en hann svo virðist sem hann hafi aðeins hitt almenna grænlenska borgara. Sjálfur sagðist Trump yngri ekki vera í heimsókn á Grænlandi með það í huga að kaupa landið. Hann væri einungis þar sem ferðamaður.