Hvetur Evrópu til að „halda kúlinu“ gagnvart Trump

Forsætisráðherra Belgíu virðist ekki telja ástæðu til að taka ummæli …
Forsætisráðherra Belgíu virðist ekki telja ástæðu til að taka ummæli Trump of alvarlega. AFP/John Thys

Forsætisráðherra Belgíu hvetur Evrópu til að „halda kúlinu“ gagnvart umdeildum yfirlýsingum Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, í aðdraganda endurkomu hans í Hvíta húsið.

AFP-fréttastofan greinir frá.

„Eitt af því sem við lærðum í fyrra skiptið hans í embætti, var að við ættum ekki að bregðast við öllu sem hann segir,“ sagði Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, á blaðamannafundi í dag, en hann lætur fljótlega af embætti sjálfur.

„Það er ýmislegt sagt í þeim tilgangi að skapa umræður, sem leiðir á endanum ekki til mikils,“ sagði Croo jafnframt.

Ætti ekki að bregðast við í hvert sinn

Trump, sem tek­ur form­lega við völd­um 20. janú­ar, olli tölu­verðu fjaðrafoki þegar hann sagði á þriðju­dag að hann myndi ekki úti­loka þann mögu­leika að beita hervaldi til þess að ná Græn­landi og Pana­maskurðinum und­ir yf­ir­ráð Banda­ríkj­anna. Hafa ráðamenn víða í Evrópu brugðist við ummælunum.

Þá hefur Mette Frederiks­sen, for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur, kallað for­menn dönsku flokk­anna á sinn fund meðal annars til að ræða ummæli Trump. En Græn­land er sem kunn­ugt er sjálfs­stjórn­ar­svæði sem heyr­ir und­ir Dan­mörku.

Croo virðist þó ekki telja að mikil alvara sé að baki orðum Trump og segir mikilvægt að halda ró sinni.

„Við ættum ekki að bregðast við í hvert sinn sem hann reynir að skapa ágreining, þá gerðum við það á hverjum degi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert