Gróðureldarnir í Los Angeles eru taldir verða þeir kostnaðarsömustu í sögu Bandaríkjanna.
Að mati tryggingasérfræðings fjármálafyrirtækisins J.P. Morgan, Jimmy Bhullar, nálgast heildartjón vegna eldanna um 50 milljarða bandaríkjadala, eða um 7 billjónir íslenskra króna.
Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal er það rúm tvöföldun frá mati heildartjóns í gær en innifalið í mati Bhullar eru yfir 20 milljarðar bandaríkjadala, eða um 2,8 billjónir íslenskra króna, fyrir vátryggt tjón.
Til samanburðar hafa gróðureldar sem brutust út í Butte-sýslu í Norður-Kaliforníu árið 2018 verið þeir kostnaðarsömustu í sögu Bandaríkjanna til þessa, en tjónið nam um 12,5 milljörðum bandaríkjadala, eða um 1,7 billjónum íslenskra króna.
Mesta tjón sem hefur hlotist af náttúruhamförum heilt yfir þar vestra er af völdum fellibylsins Katrínu árið 2005, en heildartjónið var 102 milljarðar bandaríkjadala, eða um 14 billjónir króna.
Erfitt er að segja til um hver lokatalan verður enda veltur það alfarið á því hvort draga fari úr vindi á svæðinu og slökkvilið byrji að ná betri tökum á eldunum.
Mun tjónið þó að öllum líkindum auka álag á heimilistryggingamarkað Kaliforníu verulega en hann var þegar kominn að þolmörkum fyrir eldsvoðann. Mun kostnaðurinn sömuleiðis án efa auka tryggingaiðgjöld og draga verulega úr framboði heimilistrygginga.
Líklegt er að mörg tryggingafyrirtæki reyni að skorast undan því að greiða fólki út tryggingar vegna eldanna og fólk þurfi því að leita til neyðartryggingaúrræðis Kaliforníuríkis, Fair Plan.
Með úrræðinu, sem veitir vernd fyrir húseigendur sem einkatryggingafélög hafna, má krefjast þess fyrir hönd fólksins að tryggingafélögin greiði út kröfurnar, jafnvel þó að félögin geti ekki orðið við því.