Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra eru sammála um að það sé Grænlendinga að ákveða framtíð Grænlands. Utanríkisráðherra minnir á að verðandi forseti Bandaríkjanna sé flinkur í samningatækni.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur sagt að hann vilji að Bandaríkjamenn hafi yfirráð yfir Grænlandi, meðal annars til að tryggja varnir á norðurslóðum betur. Segir hann að um þjóðaröryggismál sé að ræða fyrir frjálsa heiminn sökum staðsetningar Grænlands og vegna fágætismálama sem þar er að finna.
„Grænland ræður sér sjálft hvað varðar hver framtíð Grænlands er. Hún ræðst í Nuuk [höfuðborg Grænlands], hún ræðst ekki Bandaríkjunum og hún ræðst heldur ekki í Kaupmannahöfn [höfuðborg Danmerkur]. Við höfum alltaf staðið mjög þétt með Grænlendingum og munum gera það áfram,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í morgun.
Kristrún segir að Ísland muni áfram eiga í nánu sambandi við Bandaríkin með Donald Trump í forsetaembættinu.
Þorgerður segir að Bandaríkin séu mikilvægur bandamaður Íslands og það skipti máli að vera í góðum samskiptum við stjórnvöld þar óháð því hver sé þar við stjórnvölinn.
„Við fylgjumst mjög vel með Grænlandi og held að það skipti máli að menn sýni yfirvegun. Það finnst mér það góða í viðbrögðum Dana og Grænlendinga, að menn eru að sýna yfirvegun í þessu máli,“ segir Þorgerður um stöðuna í Grænlandi og ítrekar að framtíð Grænlands sé ákveðin af Grænlendingum.
„Auðvitað sjáum við síðan öll að þetta er bara hluti af samningatækni, sem Trump er nú ekki óflinkur í,“ segir Þorgerður.
Málefni norðurslóða skipta í auknum mæli meira máli og þjóðir eins og Bandaríkin, Rússland og Kína reyna að auka umsvif sín á svæðinu.
Spurð hvort í þessum áhuga Trumps á norðurslóðum séu fólgin einhver tækifæri fyrir Íslendinga, svo sem aukin fjárfesting þeirra á varnarsvæðinu, segir Þorgerður svo vera.
„Ég sé alveg tækifæri í þessu og hluti af því sem ég hef verið að setja fram í umræðu um varnar- og öryggisstefnu er meðal annars að við metum það hversu mikla viðveru við þurfum að hafa hér. Hvaða búnað, hvaða tæki við þurfum að hafa hér heima til þess að verja til að mynda hafsvæðið í kringum okkur,“ segir Þorgerður og nefnir sæstrengina sem tengja okkur eða aðra þætti sem tengjast vörnum landsins.
Hún segir alveg ljóst að heimsmyndin sé að breytast og nefnir að á öllum fundum sem hún sæki sé mikill þungi á öryggismál.
Meira að segja Úkraínumenn hafi áhuga á því hvað sé að gerast á Norður-Atlantshafi vegna skuggaflota Rússa sem er sterklega grunaður um skemmdaverk á sæstrengjum.
„Við megum ekki vera einföld og segja að þetta komi okkur ekki við. Þetta snertir okkar fullveldi, þetta snertir okkar öryggishagsmuni og svo framvegis. Þá verðum við að vera virkir þátttakendur og nota rödd okkar,“ segir Þorgerður.