„Kanada verður aldrei 51. ríkið“

Donald Trump hefur gert mikið grín að Trudeau og meðal …
Donald Trump hefur gert mikið grín að Trudeau og meðal annars kallað hann ríkisstjóra Kanada, ekki forsætisráðherra. AFP/Ting Shen

Lítill sem enginn vilji virðist vera fyrir því af hálfu Kanadamanna að þjóðin verði 51. ríki Bandaríkjanna. Leiðtogar stjórnmálaflokkanna hafna hugmyndum um slíkt alfarið.

„Ein af ástæðunum fyrir því að Kanada er til er einmitt til þess að vera aðskilið frá Bandaríkjunum,“ sagði Gregory Tardi, lögfræðingur sem starfaði yfirlögmaður á þinginu í Kanada.

Trump hefur að undanförnu talað um ágæti þess að Kanada verði 51. ríki Bandaríkjanna.

Ekki er ljóst hversu mikil alvara er í ummælum Trumps um að Kanada verði hluti af Bandaríkjunum, en greina má smá húmor í færslum hans á samfélagsmiðlum um málið.

Wall Street Journal greinir frá.

Bandaríkjamenn áður ásælst landssvæðið

Síðast þegar Bandaríkjamenn tóku íhuguðu það alvarlega að taka yfir Kanada var árið 1866 í kjölfar borgarastyrjaldarinnar.

Bandarískur stjórnmálamaður, sem var enn reiður yfir því að Englendingar reyndu að hjálpa Suðurríkjunum, lagði fram frumvarp í fulltrúadeildinni um innlimun Bresku Norður-Ameríku. Kanada var þá ekki sjálfstætt land.

Frumvarpið náði ekki flugi og ekki heldur hugmynd Donalds Trumps um að Kanada verði 51. ríkið, miðað við viðbrögð Kanadamanna úr öllum áttum. 

Fyrr frjósi í helvíti

Frá­far­andi for­sæt­is­ráðherra Kan­ada, Just­in Trudeau, sagði á dögunum að fyrr frjósi í hel­víti en að Kan­ada sam­ein­ist Banda­ríkj­un­um

Pierre Poilievre, leiðtogi Íhaldsflokksins í Kanada, sem verður líklega næsti forsætisráðherra Kanada miðað við kannanir, sagði að Kanada væri besti vinur Bandaríkjanna. En hann bætti við: „Við erum frábært og sjálfstætt land.“

„Kanada verður aldrei 51. ríkið,“ sagði Poilievre.

Pierre Poilievre.
Pierre Poilievre. AFP/Dave Chan

Biður um mikið í upphafi samningaviðræðna

Ummæli Trumps eru í takti við þá venju hans að koma með stóra kröfu í upphafi samningaviðræðna til að fá eins mikið og hægt er, sagði Gerald Butts, fyrrverandi ráðgjafi Trudeau og nú varaformaður ráðgjafafyrirtækisins Eurasia Group.

„Ég held að hann sé að reyna að víkka út mörkin á því hvað er mögulegt þegar kemur að samningaviðræðum,“ sagði Butts.

Leggja áherslu á sameiginlega hagsmuni

Trump hefur kvartað undan því að Kanada þurfi að tryggja landamæri sín til að takmarka flæði ólöglegra innflytjenda og eiturlyfja til Bandaríkjanna og verja meiri fjármunum í varnarmál.

Kanada er eitt strærsta viðskiptaríki Bandaríkjanna á eftir og Trump hefur kvartað undan viðskiptahalla Bandaríkjanna við nágrannaríki sitt í norðri.

Kanadamenn hafa þó brugðist við ummælum Trumps með því að leggja áherslu á sameiginlega hagsmuni ríkjanna.

„Þegar ég verð forsætisráðherra munum við endurbyggja her okkar og ná aftur stjórn á landamærunum til að tryggja bæði Kanada og Bandaríkin. Við munum taka aftur yfir stjórn norðurslóða til að halda Rússlandi og Kína frá,“ sagði Poilievre.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert