Atlantshafsbandalagið NATO hyggst senda tvö herskip til Finnska flóa á vettvang skemmdarverka á jóladag þar sem rafmagnsstrengurinn Estlink 2 ásamt fjórum ljósleiðarastrengjum á hafsbotninum milli Finnlands og Eistlands voru rofnir, en áhöfn olíuflutningaskipsins Eagle S, sem siglir undir fána Cook-eyja, liggur undir grun um að hafa rofið kaplana með akkeri sínu.
Eru skemmdarverkin þau síðustu í röð nokkurra slíkra verka þar sem neðansjávarmannvirki hafa verið skemmd eða eyðilögð í Eystrasalti eða nágrenni þess, fyrst Nord Stream-gasleiðslurnar í september 2022 og hafa sérfræðingar og stjórnmálamenn látið í veðri vaka að hafið sé yfir vafa að Rússar standi á bak við skemmdarverkin.
Þótt Eagle S sé skráð á Cook-eyjum þykir nær öruggt að skipið tilheyri hinum svokallaða skuggaflota Rússa, samansafni skipa sem að miklu leyti eru gömul olíuflutningaskip. Eiga skip flota þessa það sameiginlegt að finnast hvergi á formlegum pappírum og hafa mjög óljóst eignarhald. Áætlað er að skuggaflotinn telji um 1.400 skip.
NATO lét þau boð út ganga í desember að bandalagið hygðist auka viðveru sína á Eystrasalti í kjölfar skemmdarverka síðustu missera og í dag greindi Elina Valtonen utanríkisráðherra Finnlands frá því að herskipin tvö væru nú væntanleg til að hafa auga með skipum á vegum rússneska skuggaflotans.
Á mánudaginn greindu breskir stjórnendur herskipaflotans JEF, eða Joint Expeditionary Force, sem skip frá Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum, Bretlandi og Hollandi skipa, frá því að flotinn yki nú eftirlit sitt með neðansjávarinnviðum Eystrasalts í kjölfar liðinna atburða.
Eins og mbl.is greindi frá fyrir áramót gengu finnskir lögreglumenn um borð í Eagle S 28. desember og tóku skipið sem nú liggur við festar í Porvoo, austur af höfuðborginni Helsinki. Er átta manna áhöfn skipsins nú í farbanni í Finnlandi.
Rannsakar lögregla nú akkeri skipsins sem híft hefur verið upp af botni Finnska flóa en það slitnaði af akkerisfestinni í átökunum þegar það dróst eftir hafsbotninum og rauf, að því er talið er, þá fimm sæstrengi er málið snýst um.
Finnski forsetinn Alexander Stubb og forsætisráðherra Eistlands, Kristen Michal, munu í næstu viku standa fyrir ráðstefnu í Helsinki þar sem þau NATO-ríki, sem liggja að Eystrasalti, munu setjast á rökstóla og ræða öryggismál á sínu yfirráðasvæði.