Fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs segir mikilvægt að Grænlendingar fái fulla aðild að ráðinu. „Fáránleg vegferð“ verðandi Bandaríkjaforseta um að leggja landið undir sig sýni fram á að Norðurlönd þurfi að halda góðu samstarfi við Grænland.
„Ég er algjörlega sannfærð um það sé mjög mikilvægt að Norðurlandaráð viðurkenni sjálfstæða aðild bæði Færeyja og Grænlands,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs. Ísland gegndi formennsku í Norðurlandaráði árið 2024 en í byrjun árs 2025 tóku Svíar við.
Nú hefur Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, dustað rykið af gömlum hugmyndum sínum um að kaupa Grænland og hann útilokar ekki beitingu hervalds skyldu Grænlendingar mótmæla.
Auk þess hefur Múte B. Egede, formaður grænlensku landstjórnarinnar, nýverði lýst því yfir að Grænlendingar þurfi að taka skref í átt að sjálfstæðu landi í kringum næstu þingkosningar sem eru í apríl. Í gær sagði hann á blaðamannafundi að Grænlendingar vildu hvorki vera Danir né Bandaríkjamenn.
Grænland hefur lengi barist fyrir því að fá jafnan rétt á við fullvalda ríki í Norðurlandaráðinu. Til að mótmæla því að ráðið vildi ekki fallast á að Grænland, Færeyjar og Álandseyjar fengju fulla aðild sniðgengu Grænlendingar síðasta þing ráðsins sem var haldið á Íslandi í október.
Rökstuðningur Norðurlandaráðs gegn því að hleypa Grænlendingum inn í ráðið hafði verið sá að til þess þyrfti að breyta Helsingforssáttmálanum, sem er stofnsáttmáli Norðurlandaráðsins frá 1962 og svokölluð „stjórnarskrá Norðurlandanna“.
Á síðasta þingi samþykktu þó aðildarþjóðir ráðsins tillögu um að endurskoða samninginn þar sem því var beint til hverrar norrænnar ríkisstjórnar að skipa nefnd sem ynni að breytingartillögum. En orðalag tillögunnar var þó loðið og kvað á um að það ætti að uppfæra samninginn svo hann endurspeglaði „pólitískan veruleika á Norðurlöndum og í heiminum“ og „metnað Norðurlandaráðs um að efla norrænt samstarf“.
„Núna liggur málið hjá ríkisstjórnum norrænu landanna,“ segir Bryndís. „Þetta er ferli sem tekur einhvern tíma. En mér finnst ástæða til að vinna hratt og örugglega að því. Auðvitað númer eitt tvö og þrjú snúist þetta um að viðurkenna Grænland sem land og að þau ráði sjálf sinni framtíð.“
Sem fyrr segir telur Bryndís mikilvægt að Grænland fái fulla aðild að ráðinu einkum með tilliti til þess að Trump líti nú girndaraugum á eyjuna.
„Ég held að þessi vegferð Trumps, eins fáránleg og hún er, þá sýnir hún mikilvægi Grænlands, mikilvægi staðsetningarinnar, mikilvægi þeirra auðlinda sem þarna kunna að finnast bæði í jörðu og hafi, og ekki síst geópólitísk staðsetning Grænlands,“ segir Bryndís. „Og auðvitað á enginn að taka nokkra ákvörðun um framtíð þeirra annar en þeir sem búa á Grænlandi.“
Hún telur mikilvægt fyrir Íslendinga að halda góðu samstarfi við Grænland. Samkvæmt könnun sem framkvæmd var fyrir Grænlandsháskóla vorið 2024 segjast 80% Grænlendinga að auka eigi samstarf við Íslendinga og um 66% vilja auka samstarf við Dani.
Samkvæmt sömu könnun eru 60% þeirra Grænlendinga sem taka afstöðu hlynntir inngöngu í Evrópusambandið og er hlutfallið algjör viðsnúningur miðað við niðurstöður fyrir þremur árum. Þá vilja um 44% Grænlendinga auka öryggissamstarf við NATO en aðeins um 19% auka slíkt samstarf við Bandaríkin.
Það virðist heldur enginn vilji finnast meðal grænlenskra stjórnmálamanna um að verða hluti af Bandaríkjunum. Danska ríkisútvarpið ræddi í dag við forsvarsmenn allra fimm flokkanna á Inatsisartut, grænlenska þinginu, og enginn kvaðst hlynntur því að Grænland yrði hluti af Bandaríkjunum.
Bryndís segir þó að það sé ekkert endilega ljóst að Grænlendingar upplifi sig sem hluta af norrænu samfélagi. Inúítaþjóðin tali t.d. tungumál sem er gjörólíkt og óskylt norrænu málunum. En það gera Finnar einnig.
Hagsmunir norðurlandanna séu þó fólgnir í því að Grænlendingar sjái sig sem norræna þjóð.
„Ég myndi segja að það sé ákveðin fjárfesting í því fólgin fyrir Norðurlandaráð sem slíkt að sjá mikilvægi þess að Grænland sé enn hluti af Norðurlöndunum. Því að þeim finnst að einhverju leyti þau eiga margt sameiginlegt með öðrum frumbyggjum í Norður-Ameríku.“