Allsherjarverkfall stendur yfir í Belgíu sem hefur áhrif á flug- og lestarsamgöngur í landinu. Um 40% allra flugferða á flugvellinum í Brussel, sem er stærsti flugvöllur landsins, hefur verið aflýst eftir að fjölmargir starfsmenn þar lögðu niður störf.
Málið varðar kjarabaráttu stéttarfélaga þar sem breytingum á lífeyrisréttum starfsfólks er mótmælt.
Forsvarsmenn Brussels Airlines sögðu á laugardag að flugfélagið hefði neyðst til að ákveða fyrir fram að aflýsa um helmingi flugferða þess innan Evrópu til að halda úti lengri ferðum.
Talsmenn flugvallarins í Charleroi airport, sem er m.a. mikilvæg miðstöð fyrir írska lággjaldaflugfélagið Ryanair, segja að búast megi við miklum töfum auk þess sem gert er ráð fyrir að ferðum verði aflýst.
Einnig hefur orðið röskun á starfsemi í Brussel og í suðurhluta landsins.
Margir kennarar, þá sér í lagi í Flanders í norðurhluta landsins, taka þátt í verkfallinu.
Þrjú stærstu verkalýðsfélög landsins skipulögðu verkfallið til að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði lífeyrisréttinda, sem væntanleg ríkisstjórn gæti samþykkt að ráðast í.
Belgískir flokkar eiga enn í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar í kjölfar þingkosninganna sem fóru fram í júní.