Ungliðahreyfing Kristilega þjóðarflokksins í Noregi, KrFU, fer þess á leit við lögregluyfirvöld, studd Landssambandi lögreglumanna í Noregi, Politiets Fellesforbund, að svokallaðar búkmyndavélar verði teknar í notkun hjá lögregluliðum landsins, það er myndavélar sem gera og vista upptöku af allri atburðarás í hljóði og mynd.
Fylgir umleitunin í kjölfar dóms Hæstaréttar í Kongsberg-málinu svokallaða, einu umdeildasta máli sem norsk lögregla hefur staðið frammi fyrir vegna athafna eigin fólks. Fjallar málið um harðvítug átök lögreglu við nokkur ungmenni á plani bensínstöðvar í Kongsberg í október 2022 sem lyktaði með því að rannsóknardeild í innri málefnum lögreglu, Spesialenheten for politisaker eins og hún heitir, ákærði einn lögregluþjónanna fyrir líkamsárás og brot í starfi.
Sýknaði héraðsdómur lögreglumanninn, en lögmannsréttur sakfelldi hann í kjölfar áfrýjunar og dæmdi hann til 120 daga fangelsisvistar. Kom málið þá til kasta Hæstaréttar Noregs sem sýknaði lögreglumanninn af báðum ákæruliðum, þó naumlega þar sem dómurinn klofnaði og töldu tveir af fimm dómurum ákærða hafa farið offari í starfi sínu á meðan meirihlutinn taldi valdbeitinguna hafa verið „nauðsynlega“ og „verjanlega“.
Annar lögregluþjónn á vettvangi, sem tók síma eins viðstaddra af honum og eyddi myndskeiði af átökunum, hlaut hins vegar 12.000 króna sekt fyrir að hafa gengið þar of langt. Jafngildir sektarupphæðin rúmlega 148.000 íslenskum krónum.
„Augsýnileikinn og sönnunargildið sem myndavélarnar bjóða upp á staðfesta atburðarásina í erfiðum málum með óyggjandi hætti,“ segir Erik Martinez Rønhovde varaformaður KrFU í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að jafnvel þótt hinn ákærði í Kongsberg málinu hafi verið sýknaður sé það áhyggjuefni að lögreglan hafi reynt að hylma yfir málið, hvort tveggja með því að eyða myndskeiðinu og eins gefa rangar skýrslur um hvað gerst hefði.
Áður en upptaka úr öryggismyndavél bensínstöðvarinnar komst í hendur fjölmiðla, nokkrum dögum eftir atburðinn, lét lögregla það í veðri vaka að um líkamsárás á lögregluþjón hefði verið að ræða og rataði frétt af því í staðarblað Kongsberg morguninn eftir.
„Í Noregi starfar fagmannleg lögregla sem nýtur trausts flestra borgara. Það traust er ekki sjálfsagt. Þess vegna er nauðsynlegt að allt sé uppi á borðinu,“ segir varaformaðurinn enn fremur.
Landssamband lögreglumanna í Noregi snýst á sveif með ungliðahreyfingunni svo sem sjá má af ummælum Unn Ölmu Skatvold formanns við NRK: „Mörg lönd nota myndavélarnar með góðum árangri. Allt er hvort sem er tekið upp í nútímasamfélaginu og þá er mikilvægt að fá einnig sjónarhorn löggæslufólks,“ segir hún, „við erum komin á þann stað að þetta er nauðsynlegt. Ekki síst eins og staðan er í dag þegar við horfum upp á aukið ofbeldi og hótanir í garð löggæslufólks.“