Þjóðernisflokkurinn AFD dreifir nú einblöðungum í þýsku borginni Karlsruhe sem eru eins og flugmiðar í laginu en á þeim stendur að þetta séu brottvísunarmiðar fyrir ólöglega innflytjendur. Þýska lögreglan rannsakar gjörninginn.
Á einblöðungnum stendur „brottvísunarmiði“ og þar kemur fram nafn farþegans sem er „ólöglegur innflytjandi“ og áfangastaðurinn sem er „öruggt upprunaland“. Brottfarardagur er merktur 23. febrúar, eða þegar Þjóðverjar ganga til þingkosninga.
Á einblöðungnum eru einnig kosningaloforð AFD um að leyfa útlendingum ekki að nýta velferðarþjónustu og að stöðva „íslamvæðingu“ Þýskalands.
Linke hyperventilieren wegen dieses Tickets. Wichtig zu wissen:
— Krzysztof Walczak (@Rekonstrukteur) January 13, 2025
1. Es wurde als Wahlwerbung an alle Briefkästen verteilt und nicht gezielt an Migranten.
2. Auf der Rückseite ist das verfassungskonforme Programm der AfD erklärt: „Staatsbürger werden nicht abgeschoben!“ pic.twitter.com/1f70ecAAyF
Nokkrir hælisleitendur hafa látið vita af því á samfélagsmiðlum að þeir hafi fengið einblöðungana undanfarna daga, en AfD hafnar því að flokkurinn sendi þá sérstaklega til útlendinga.
Talsmaður lögreglunnar í Karlsruhe sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að rannsókn væri hafin á því hvort að um væri að ræða mögulega „hvatningu til haturs“.
AfD í Karlsruhe hefur sagt í yfirlýsingu að einblöðungunum hafi verið dreift í borginni „í eins miklum mæli og mögulegt er” og að boðskapurinn og dreifingin sé að fullu í samræmi við lög.
Samkvæmt könnunum þá er AFD með stuðning 21% Þjóðverja og mælist flokkurinn aðeins á eftir Kristilegum demókrötum, sem mælast með 31% fylgi.