Donald Trump, sem í næstu viku sest á ný í forsetastól Hvíta hússins í Washington, hefði hlotið dóm fyrir tilraunir sínar til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020 hefði hann ekki náð kjöri í nýafstöðnum kosningum.
Þetta er niðurstaða skýrslu rannsakandans sértilnefnda í málinu, Jack Smith, sem um langt árabil hefur starfað við bandaríska dómsmálaráðuneytið, hvort tveggja sem saksóknari og aðstoðarsaksóknari.
Segir Smith í skýrslu sinni að það viðhorf dómsmálaráðuneytisins að ótækt sé að halda uppi saksókn og málarekstri gegn kjörnum forseta dragi ekki úr alvarleika þeirra brota sem Trump séu borin á brýn, gildi sönnunargagna hins opinbera eða málatilbúnaði ákæruvaldsins sem skýrsluhöfundur standi fullkomlega við.
Eykur Smith þeim orðum svo við í skýrslunni, að áður en til kjörs Trumps á nýjan leik hafi komið hafi rannsókn hans þegar leitt til þeirrar niðurstöðu að sönnunargögn gegn forsetanum fyrrverandi og verðandi væru yfrið næg til að knýja fram sakfellingu við málaferli.