Sextíufalt dýrara rafmagn

Íbúar Norður-Noregs þurfa ekki að missa svefn yfir raforkuverði allt …
Íbúar Norður-Noregs þurfa ekki að missa svefn yfir raforkuverði allt árið 2025. Á myndinni er Tromsø, höfuðstaður norðursins í Noregi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Harvey Barrison

Aðfaranótt gærdagsins, þriðjudags, nutu íbúar Norður-Noregs ódýrasta rafstraums til híbýla sinna sem nokkru sinni hefur gengið kaupum og sölum þar í landshlutanum, þegar kílóvattstundin fór niður í einn norskan eyri klukkan þrjú um nóttina að staðartíma – jafnvirði rúmlega tólf íslenskra aura, það er 0,12 króna.

Sólarhringsmeðalverð það dægrið náði tæpum fjórum aurum sem þá nemur að sama skapi hálfri krónu íslenskri, upphæð sem íslenskir neytendur þurfa líkast til sjaldan að taka með í nokkurn reikning.

Skammt er þó öfganna á milli því annað er sannarlega uppi á teningnum í suðurhluta hins tæplega 1.800 kílómetra langa Noregs sé talið í norður-suður. Í dag mega íbúar þess landshluta sætta sig við að greiða sextíufalt hærra verð fyrir kílóvattstundina en landarnir norður frá, 3,01 krónu að meðaltali á kílóvattstund sem nemur 37,2 íslenskum krónum.

Framleiðslustopp Svartisen mælist ekki

Í Noregi veltur rafmagnsverð umfram annað á hæð vatnsborðsins í gríðarmiklum sílóum, eða vatnsmagasínum eins og þau kallast upp á norsku, vannmagasin. Eru þar á ferð eins konar „uppistöðulón“ sem fyllast þegar úrkoma er mikil, svo sem gjarnan vill verða á þeim árstíma sem nú fer í hönd.

Við Zakarias-stífluna við Sakrisvatnið í Norddal í Mæri og Raumsdal …
Við Zakarias-stífluna við Sakrisvatnið í Norddal í Mæri og Raumsdal má safna upp 70 milljónum rúmmetra af vatni áður en því er hleypt niður í framleiðsluverið sem er byggt inn í fjallið 450 metrum neðar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Vidar Iversen

Þá er kátt í höllinni og hið almennt rándýra norska rafmagn fæst fyrir slikk. Hinn endi skalans eru svo langir og heitir þurrkakaflar á sumrin þegar rafmagnið kostar hvítuna úr augunum og framleiðslugetan verður svo takmörkuð að norsk orkudreifingarfyrirtæki bregða á það ráð að kaupa rafmagn af nágrönnum sínum í Svíþjóð – oftar en ekki með allbrattri álagningu Svíanna.

„Ástæðan fyrir þessu ódýra rafmagni norður frá er óvenjumikið vatn og snjór í sílóunum, framleiðslugetan er núna sautján teravattstundum yfir meðaltalinu,“ segir Johnny Horsdal, sölustjóri orkudreifingarfyrirtækisins SKS Handel AS í Fauske í Nordland-fylki, við norska ríkisútvarpið NRK í morgun.

Staðan er svo góð að þegar vatnsaflsvirkjunin Svartisen vannkraftverk á Meløy, einnig í Nordland, stöðvar framleiðslu sína tímabundið, en um nokkuð langt skeið, frá mánudegi vegna viðhaldsvinnu, mun það nánast engin áhrif hafa á raforkuverð landshlutans, en Svartisen framleiðir rúmar tvær teravattstundir rafmagns ár hvert.

„Raforkukaupendur norður frá þurfa ekki að hafa áhyggjur af orkuverðinu, þeir þurfa ekkert að hugsa út í það,“ segir Horsdal við NRK og spáir því að íbúar landshlutans fái sitt rafmagn fyrir gjafverð allt árið sem nú var að ganga í garð.

NRK

NRK-II (stórtapaði á að selja Sunnlendingum ódýrt rafmagn)

Europower

Rafmagnsverð skv. Nord Pool

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert