New Glenn, geimflaug fyrirtækis bandaríska auðkýfingsins og Amazon-upphafsmannsins Jeffs Bezos, Blue Origin, hófst á loft frá Canaveral-höfða í Flórída í Bandaríkjunum klukkan 02:03 að staðartíma í nótt, 07:03 að íslenskum, eftir fyrri frestun skotsins sem gekk nú að óskum, en átti raunar að fara fram á mánudaginn.
Komst flaugin á sporbaug eftir að hafa þotið gegnum Karman-mörkin svokölluðu þar sem loftmæri andrúmslofts jarðar og geimsins liggja samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu og skömmu síðar tilkynnti Blue Origin á samfélagsmiðlinum X að New Glenn væri á sporbaug um plánetuna.
Geimferðaáætlun Bezos er í harðri samkeppni við tilraunir Tesla-kóngsins Elons Musks til að framkvæma geimskot á vegum fyrirtækis síns SpaceX og var erkikeppinauturinn Musk einna fyrstur manna til að stíga fram með hamingjuóskir í garð Bezos í kjölfar geimskotsins vellukkaða, en svo vill til að Musk er eini maður veraldar með þykkara seðlaveski en Bezos, ef marka má milljarðamæringatal tímaritsins Forbes. Þriðja sætið vermir svo Facebook-kvöðullinn Mark Zuckerberg.
New Glenn-flaugin er 98 metrar að lengd og vísar nafnið til bandaríska geimfarans Johns Glenns. Nú bíður það verkefni tækniliðs Blue Origin að lenda fyrsta skotþrepi New Glenn á flotdróna, fjarstýrðu sjófari, á Atlantshafinu, en það var einmitt mikil ölduhæð sjávar sem gerði það að verkum að Blue Origin frestaði skotinu svo lending fyrsta þrepsins gengi frekar að óskum.
Smáfarið Blue Ring, hvers smíði bandaríska varnarmálaráðuneytið fjármagnaði og bundnar eru vonir við að ferðist einhvern tímann eitt síns liðs um sólkerfið, heldur kyrru fyrir um borð í New Glenn í þessu tilraunaflugi sem gert er ráð fyrir að standi í sex klukkustundir.