Netanjahú frestar atkvæðagreiðslu um vopnahlé

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur frestað atkvæðagreiðslu um vopnahléssamninginn við Hamas sem ísraelska ríkisstjórnin átti að greiða atkvæði um í dag.

Í yfirlýsingu frá skrifstofu hans er því haldið fram að Hamas ætli ekki að standa við sinn enda samningsins og að samtökin hafi reynt að kúga Ísrael á síðustu stundu.

„Ísrael mun ekki ákveða dagsetningu fundar ríkisstjórnarinnar þar til sáttasemjarar hafa tilkynnt að Hamas hafi samþykkt öll smáatriði samningsins,“ segir í yfirlýsingunni.

Hamas segjast þó reiðubúin að framfylgja samningnum.

73 drepnir frá því að samningur var í höfn

Mikil fagnaðarlæti brutust út á Gasa í gær þegar sáttasemjarar í Katar tilkynntu í gær að vopnahléssamningur væri í höfn.

Síðan þá hafa ísraelskar hersveitir drepið 73 Palestínumenn á Gasasvæðinu, að sögn yfirvalda á Gasa sem eru undir stjórn Hamas-samtakanna, þar af 20 börn.

Þá eru 230 sagðir særðir.

Hamas segjast skuldbundin samningnum

Seint í gærkvöldi sagði Netanjahú að útlit væri fyrir að Hamas hygðust ekki standa við ákveðin atriði sem kveðið væri á um í samningnum. Kynna átti samninginn fyrir ísraelsku ríkisstjórninni í dag og greiða atkvæði um hann.

Fyrir um tveimur klukkustundum tilkynnti Netanjahú að hann ætlaði ekki að kynna samninginn í dag og að ríkisstjórnin hefði ekki verið kölluð saman til fundar.

Háttsettur embættismaður innan Hamas segir að samtökin séu skuldbundin því að standa við vopnahléssamninginn sem sáttasemjarar tilkynntu í gær.

Ekki liggur fyrir hver næstu skref verða.

Undirstrikar viðkvæma stöðu

Alex Rossi, fréttaritari Sky News í Jerúsalem, segir útspil Netanjahús undirstrika hve gríðarlega viðkvæm staðan sé milli Ísraels og Gasa.

„Við vissum að þetta myndi reynast mikil þrautaganga fyrir báðar hliðar að komast að niðurstöðu í samningnum en gerðum okkur kannski ekki grein fyrir því raunverulega hversu það var erfitt, fyrr en í morgun,“ segir Rossi.

Hann segir ekki liggja fyrir hvers vegna Ísraelar séu ósáttir við samninginn en það geti m.a. varðað hvaða palestínsku fanga Ísraelar ættu að sleppa úr haldi eða atriði sem við koma brottflutningi hermanna frá Gasa.

„Það sem er erfitt að átta sig á er hvort þetta sé aðeins uppþot í kringum samninginn eða hvort þetta sé eitthvað mun alvarlegra,“ segir Rossi.

„Við ættum að fá betri mynd af stöðunni eftir því sem líður á daginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert