Varaði við hættulegri fákeppni

Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti kveðjuræðu sína en hann lætur af …
Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti kveðjuræðu sína en hann lætur af embætti 20. janúar. AFP

Í kveðjuræðu sinni til bandarísku þjóðarinnar í gærkvöld hvatti Joe Biden Bandaríkjaforseti landa sína til að standa vörð gegn hættulegri fákeppni sem myndist undir stjórn Donald Trump. 

Trump sest aftur í forsetastól Bandaríkjanna á mánudaginn og í ræðu sinni lagði Biden áherslu á að forsetinn ætti ekki að hafa ótakmarkað eða óskorað vald.

„Í dag er fákeppni að taka á sig mynd í Bandaríkjunum af miklum auði, völdum og áhrifum sem bókstaflega ógnar öllu lýðræðinu okkar, grundvallarréttindum okkar og frelsi,“ sagði Biden.

Biden sagði að margar hættur steðjuðu að Bandaríkjunum sem hann vísaði greinilega til náinna tengsla Trump við Elon Musk, ríkasta mann heims, og aðra tæknijöfra. Musk mun gegna mikilvægu ráðgjafahlutverki í komandi ríkisstjórn Trumps.

Biden varaði við því að hættuleg samþjöppun valds væri nú í höndum ofurríks fólks með hættulegum afleiðingum ef valdaníðsla þeirra er látin óheft. Þá sagði hann að hætta stafaði af villandi upplýsinga og upplýsingafölsunar.

„Bandaríkjamenn eru grafnir undir snjóflóði rangra upplýsinga. Frjálsa pressan er að molna. Ritstjórar eru að hverfa. Samfélagsmiðlar gefast upp á því að kanna staðreyndir. Sannleikurinn er kæfður með lygum sem sagðar eru til valda og hagnaðar,“ sagði Biden.

Um loftlagsbreytingar sagði hann:

„Sterk öfl vilja beita óheftu áhrifum sínum til að útrýma þeim skrefum sem við höfum tekið til að takast á við loftslagskreppuna til að þjóna eigin hagsmunum fyrir völd og gróða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert